149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mjög mikinn áhuga á nefndaráliti meiri hlutans og vil þakka sérstaklega hv. þingmönnum Vilhjálmi Árnasyni og Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að hafa unnið vel að þeim breytingartillögum sem koma þarna fram, um flýtingu framkvæmda o.s.frv., þrátt fyrir að þær hafi komið dálítið seint fram. Það var kannski helsta vandamálið, það var mjög seint í rassinn gripið að reyna að toga okkur þarna inn í byrjun desember til að koma að þeirri vinnu að bæta þessum framkvæmdum við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um kaflann Vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku, og þá veggjöldin — þá kafla sem þetta hefur snúist um síðan þá: Er nauðsynlegt að hafa þessa kafla í nefndarálitinu? Í nefndarálitum beinir nefnd vissulega mjög oft ýmsum tilmælum til ráðherra en á mjög almennum nótum. Þessi kafli þarna, um vegaframkvæmdir fjármagnaðar með gjaldtöku, er mjög nákvæmur og þar eru leiðbeiningar til ráðherra um það hvernig haga eigi fjármögnun þessara viðbótarframkvæmda. Þetta er mjög nákvæmt og í raun ígildi þingsályktunartillögu, að mínu mati. Þetta er það viðamikið. Í staðinn mætti segja að meiri hluti nefndarinnar hvetji ráðherra til að koma með þessar framkvæmdir til viðbótar og fjármagna samkvæmt stefnu stjórnvalda eða eitthvað því um líkt. En hér eru einhvern veginn að koma frá þinginu og frá meiri hluta nefndarinnar leiðbeiningar um það hvernig eigi að gera þetta. Ég velti fyrir mér hvort nauðsynlegt sé að hafa það í nefndarálitinu hvernig ráðherra eigi að framkvæma og fjármagna þessar viðbótarframkvæmdir.