149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Frú forseti. Við ræðum samgönguáætlun til næstu fimm ára samhliða áætlun til lengri tíma. Ekki er ofsögum sagt að samgöngumál brenni á þjóðinni því að öllum er augljóst að vegakerfið í landinu er komið að fótum fram. Eftir samdráttarskeiðið 2009–2013 þegar öllum meiri háttar framkvæmdum var slegið á frest byrjaði að halla undan fæti, en sannleikurinn er einnig sá að samdráttarskeiðið sem þarna hófst í vegamálum stóð að mestu óslitið allt þar til á síðasta ári.

Ástand vegakerfisins stafar því af áralangri vanrækslu í þessum efnum og að einhverju leyti af skiljanlegum orsökum. Viðhaldsþörfin er orðin æpandi. Ástandið væri kannski ekki eins knýjandi ef ekki hefðu samtímis komið til ýmsir ytri þættir sem hafa valdið því að álagið á vegakerfið er orðið miklu meira en var fyrir tíu árum. Ferðamannastraumurinn og uppgangur síðustu ára hefur valdið því að álagið á vegakerfið hefur margfaldast á stuttum tíma sem kemur fram í aukinni viðhaldsþörf og ekki síður aukinni þörf fyrir nýframkvæmdir.

Löngu er kominn tími til að láta hendur standa fram úr ermum. Það voru því mikil vonbrigði þegar samgönguáætlun leit dagsins ljós með þeim viðbótum sem ríkisstjórnin lagði í vegagerð því að staðreyndin lá í augum uppi að hér væri farið af stað af miklum vanefnum.

Í umhverfis- og samgöngunefnd heyrðum við á gestum hvaðanæva að að þörfin væri svo miklu meiri en áætluninni var gert að uppfylla. Alls staðar er þörf á úrbótum, ekki síst á vegum í kringum höfuðborgarsvæðið. Að ætla vegfarendum, jafnvel næstu 15 árin, að aka eftir mjóum vegum án aðskilinna akstursstefna inn og út úr borginni, þar sem umferðin er orðin svo mikil sem raun ber vitni, er hreinlega ekki viðunandi og það er öllum ljóst.

Frú forseti. Venjulega er það þannig á hinu háa Alþingi að flest mál koma fullburða frá ráðuneytunum þar sem þau hafa verið samin. Í nefndum Alþingis er farið höndum um málin, stundum gerðar viðbætur. Síðan fer lagafrumvarpið eða ályktunin í gegnum þingið, í flestum tilfellum lítið breytt. Í raun og veru stafa frumvörp og ályktanir frá framkvæmdarvaldinu, ráðherranum og embættismönnum í ráðuneytunum. Á Alþingi fer þannig fram nokkurs konar yfirlestur á afurðum úr ráðuneytunum.

Á þetta hef ég deilt og gerði það fyrst í jómfrúrræðu minni hér á þingi í desember 2017. Ég tel að efla beri frumkvæði Alþingis við lagasetningu og að löggjafarvaldið þurfi að hafa meiri burði til að koma með skilvirkari hætti að gerð lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna.

Í því ljósi verð ég því að lýsa ánægju minni með það verklag sem umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hefur viðhaft í þessu tiltekna máli. Vonandi eru þessi vinnubrögð vísir að því sem koma skal, nefnilega að nefndir Alþingis komi með virkum og afgerandi hætti að samningu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna frá upphafi og móti þá stefnu sem þar kemur fram. Þannig á það að vera. Því fagna ég þessum vinnubrögðum.

Frú forseti. Við þær aðstæður sem ég hef farið yfir stóðum við frammi fyrir því að láta vegakerfið reka á reiðanum áfram og sætta okkur við að ýmsar brýnar samgöngubætur, svo sem að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar úr Hafnarfirði og upp að flugstöð, ljúka Vesturlandsvegi úr Reykjavík um Kjalarnes og alla leið upp í Borgarnes, aðskilja akstursstefnur á Selfoss og byggja nýja Ölfusárbrú og margar fleiri brýnar framkvæmdir mætti nefna, yrðu látnar bíða.

Við sáum fram á að þetta yrði allt látið bíða og mörg ár yrðu þar til við fengjum að sjá þeim framkvæmdum lokið. Að vegfarendur yrðu að bíða árum saman og jafnvel upp í 15 ár eftir að gengið yrði í þau brýnu verkefni var hreinlega ekki inni í myndinni.

Því skrifaði ég undir nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar með fyrirvara um nokkur atriði sem ég fer yfir hér á eftir. Fyrirvari minn er svohljóðandi:

Ég styð nefndarálitið í megindráttum með þeim fyrirvara að í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt að kveða skýrt á um fjárhæð veggjalda og útfærslu afsláttarkjara og leggja sérstaka áherslu á lækkun gjalda á bifreiðaeigendur samhliða upptöku veggjalda. Þá tel ég að nota eigi fjármagn sem fyrirhugað er að renni í væntanlegan þjóðarsjóð að hluta til að kosta framkvæmdir í samgönguáætlun og nefni þar t.d. langþráða Sundabraut. Þá tel ég einnig í mínum fyrirvara að forðast beri margfeldisinnheimtu veggjalda af þeim sem þurfa að fara um mörg veggjaldahlið til að sækja til að mynda þjónustu til höfuðborgarinnar. Heilt yfir tekið: Það verður að grípa til raunhæfra aðgerða til að flýta brýnum úrbótum í samgöngumálum.

Hæstv. forseti. Það er í raun svo að umhverfis- og samgöngunefnd beinir þeim tilmælum til ráðherra í ítarlegu máli að útfæra nánar, á tiltekinn hátt, í stórum dráttum, þá stefnu sem nefndin hefur mótað, þ.e. að flýta framkvæmdum í samgönguáætlun með því að leggja til að þau verði fjármögnuð með veggjöldum.

Ástæðurnar eru þekktar og nánast óþarfi að fara yfir þær. Ég hef nefnt knýjandi þörf á framkvæmdum í vegamálum með tilheyrandi auknu öryggi fyrir alla vegfarendur. Stóraukning umferðar, ekki síst með margföldun ferðamannastraums á örfáum árum, veldur því að öryggi á vanbúnum vegum landsins snarversnar mjög hratt. Við það verður ekki búið mikið lengur.

Einnig kemur fleira til. Áætlað er, og er þar stuðst við tölur á innheimtu veggjalda úr Hvalfjarðargöngum, að erlendir gestir muni greiða u.þ.b. 40% af kostnaðinum við slíkar framkvæmdir, að því gefnu að straumur ferðamanna verði áfram hingað til lands óbreyttur. Þá ber að hafa í huga orkuskipti á bifreiðaflota landsmanna á næstu árum og fyrirsjáanlega fjölgun rafbifreiða sem mun verða til þess að tekjur af bensíni og olíu munu lækka umtalsvert, jafnvel innan skamms tíma.

Við þessu verður að bregðast. Fyrirsjáanleg stöðvun í jarðgangagerð eftir að Dýrafjarðargöngum er lokið er eitthvað sem mun koma harkalega niður á mörgum byggðarlögum úti á landi. Þarf ekki að nefna annað en göng til Seyðisfjarðar sem eru lífsnauðsynleg fyrir eflingu byggðar, stækkun atvinnusvæðis og öryggi fyrir íbúa á Seyðisfirði og gesti sem þar koma til landsins. Bráðnauðsynlegri jarðgangagerð verður að halda áfram.

Margar brýnar framkvæmdir sem eru aftarlega á samgönguáætlun verði færðar fram í tíma og svigrúm myndast við vegabætur um allt land. Hér mætti nefna fjölmargar framkvæmdir sem allt of langt er í miðað við óbreytta áætlun. Ætla ég ekki að þreyta hlustendur á að telja þær allar upp en vil nefna t.d. nýja Ölfusárbrú. Ekki þarf að skýra það út fyrir íbúum á Selfossi og ferðafólki sem á leið um brúna yfir Ölfusá að afkastageta hennar á álagstímum er beinlínis hættuleg þar sem lögregla og viðbragðsaðilar komast þar ekki um með góðu móti. Ég hef nefnt Reykjanesbraut og ég get endurtekið það, sem yrði kláruð fyrr en áætlanir gera ráð fyrir. En einnig mætti nefna marga fleiri vegarkafla sem opnast möguleiki á að fara fyrr í.

Í nefndarálitinu er einnig rætt um styttingu leiða þar sem möguleiki opnast á að fjármagna, a.m.k. að hluta til, þær framkvæmdir með gjaldtöku. Það eru mörg svæði sem gætu hugsanlega notið góðs af því. Ég vil nefna Húnavatnssýslu, Húnavallaleiðina. Ég vil nefna Mýrdalinn sem blandast kannski einnig inn í jarðgangagerð. Með þessu opnast tækifæri til að koma til móts við kröfur íbúa og vegfarenda hér á landi um að í þessar framkvæmdir verði farið fyrr, vegakerfið verði öruggara, það verði fjármagnað allt að helmingi af gestum sem sækja landið heim.

Örlítið meira um fyrirvara minn við nefndarálitið, til að skýra það örlítið betur út. Fyrirvarinn gengur út á það að ég legg áherslu á að í tillögu ráðherra, þar sem útfærslan á málinu mun birtast í frekari smáatriðum síðar á þessu ári, verði tekið tillit til nokkurra atriða eins og þeirra að komist verði hjá margfeldisinnheimtu veggjalda, eins og ég orða það: Hvað þurfa vegfarendur sem aka um langa leið, t.d. frá Höfn í Hornafirði eða frá Bolungarvík, að greiða við mörg veggjaldahlið? Ég hef áhyggjur af því og ég vil sjá þetta betur útfært.

Ég tel þetta eiga líka við um íbúa í þéttbýlinu. Tilraunina þarf að útfæra þannig að gjaldtökunni verði stillt í hóf á hvern og einn vegfarenda.

Þá er í fyrirvara mínum talað um fjárhæð veggjalda og útfærslu afsláttarkjara. Þetta brennur auðvitað á mörgum. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið í nefndinni gætu algeng veggjöld fyrir þá notendur sem fara oft um veggjaldahlið orðið undir 200 kr. og jafnvel allt niður í 150 kr. Það finnst mér ásættanlegt ef af verður. En að teknu tilliti til þess sem ég nefndi um margfeldisinnheimtuna verðum við að fara gætilega í þetta, eins og t.d. innan höfuðborgarinnar. Ef vegfarendur fara í gegnum fleiri en eitt, tvö eða jafnvel fleiri hlið innan höfuðborgarsvæðisins þá tel ég kannski heldur mikið í lagt.

Það verður líka að vera alveg skýrt, og það er reyndar í álitinu minnst á það, að fjárhæð veggjalda verði ákveðin og innheimtu þeirra verði lokið þegar uppgreiðslu lýkur.

Ég tel mjög mikilvægt að samhliða álagningu veggjalda verði gjöld á bifreiðaeigendur lækkuð. Það verði loforð um lækkun almennra gjalda á bifreiðaeigendur. Það er auðvitað ekki boðlegt, ef við horfum nokkur ár fram í tímann, fyrir þá sem eiga kannski bensínbíl að borga þetta tvöfalt, ef svo má að orði komast, þ.e. að borga þessi venjulegu bifreiðagjöld, bensínskatta, olíuskatta, aðflutningsgjöld o.s.frv., og greiða síðan líka þungar álögur í formi veggjalda. Þetta þarf að jafna út að mínu mati þannig að um leið og veggjöldin verða tekin upp verði þessar föstu álögur lækkaðar þannig að útkoman verði, ef ég má nefna það, fyrir fólk sem fer kannski lítið, fer sjaldan og fer jafnvel stutt, að ekki verði auknar álögur á því fólki. Það þarf að koma því þannig fyrir að álögur aukist ekki á þá sem ferðast innan höfuðborgarsvæðisins, t.d. til og frá vinnu. Þau verði þá lækkuð til jafns við önnur gjöld.

Ég nefndi það líka í fyrirvara mínum að það fjármagn sem menn ætla, og menn eru ansi stóreygir í þeim efnum, að leggja til hliðar gífurlegt fjármagn í svokallaðan þjóðarsjóð sem uppi eru hugmyndir um að setja á stofn, að hluti af því fé verði í upphafi þess sjóðs notað til brýnna samgöngubóta, eins og t.d. þeirrar samgöngubótar sem við erum búin að bíða eftir í áratugi, svonefnda Sundabraut. Mér finnst það tilvalið. Þurfum við að leggja fé til hliðar í einhvern sérstakan þjóðarsjóð? Er ekki ríkissjóður nægilega tryggur til að geyma slíkt fé? Hvernig væri að taka fyrstu greiðslurnar í svona mjög svo brýnt verkefni innan höfuðborgarsvæðisins?

Ég ætla ekki að ljúka máli mínu án þess að nefna eitt atriði í viðbót, hina svokölluðu skosku leið, sem ég fagna ákaflega. Álit meiri hluta nefndarinnar, sem ég skrifa undir með fyrirvara, tekur einnig undir tillögu starfshóps um upptöku skosku leiðarinnar sem gengur út á að niðurgreiða tiltekinn fjölda flugfargjalda fyrir íbúa sem búsettir eru í mikilli fjarlægð frá höfuðborginni. Þessi tilmæli í nefndarálitinu eru til komin vegna þess að mörg undanfarin ár er það svo að vægi höfuðborgarinnar er sífellt að aukast hvað alla þjónustu varðar. Má fyrst nefna mestöll stærri sjúkrahús og læknisþjónustu, sem nú er að meginstefnu til staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Að ónefndri stjórnsýslunni sem hrúgast í síauknum mæli á þetta horn landsins. Hér eru öll ráðuneyti landsins og við sem erum í lagasetningarvaldinu.

Herra forseti. Hér er um grundvallarstefnubreytingu að ræða við fjármögnun vegakerfisins og því þarf nauðsynlega skýra vegvísa til ráðuneytisins. Ég tel að í álitinu sé svo. Þar er um marga skýra vegvísa ræða sem ættu að hraða vinnu í ráðuneytinu meira en ella.