149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (andsvar):

Herra forseti. Meiri hlutar í sveitarstjórnum og jafnvel á Alþingi eru ekki eilífir, eins og hv. þingmaður veit. Þetta er ekki eilíft ástand. Auðvitað kemur Sundabraut og það má færa hana til þótt byggt sé á einhverjum stöðum.

Ég sé kannski ekki í fljótu bragði svarið við þeirri spurningu hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir, hvernig eigi að ýta á eftir því. Alþingi getur með ýmsu móti ýtt á eftir slíku en skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaga. Við þurfum að bíða á meðan ekki eru viðbrögð þaðan að fá.

Tilkoma Sundabrautar, hvenær sem það verður nú, er til þess að efla atvinnusvæðið í heild sinni. Eins og hv. þingmaður veit eru þarna fjölmenna byggðir, uppi á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ, og síðan mun hún að sjálfsögðu auka öryggi og stytta allar ferðaleiðir, bæði upp á Akranes, Borgarnes og norður í land. Þetta er mjög mikilvæg framkvæmd og eitthvað sem allir hagnast verulega á ef hún verður að veruleika, fyrr eða síðar.