149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:18]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ferska sýn hans á eitt og annað. Þar á meðal tek ég undir suma af fyrirvörum hans, tilmælum til samgönguráðherra. Mig langar þó aðeins að stoppa við loftslagsmálin, vegna þess að ég veit að þau eru honum hugleikin. Gagnrýnt er af hans hálfu að við værum að leggja tvö gjöld á þá sem keyra bensín- og olíubíla ef veggjöldin væru kominn, en ekki á þann sem ekur rafbíl. Er eitthvert réttlæti í því? Þá segi ég já og ætla að spyrja hvort hann sé ekki sammála því vegna þess, og ég gerði grein fyrir því áðan, að í því felst hvatning til orkuskipta. Það er mjög mikilvægt að við gerum þetta með kolefnisgjöldum og sennilega seinna meir með ýmsu öðru móti. Við munum sennilega leggja kílómetragjald á rafbíla þegar fram í sækir. Einhvern veginn verða þeir að koma inn í minnkandi gjöld til vegamála. Svo ég spyr: Er þetta ekki rétt hjá mér? Er ekki vistvænt að gera það svona? Menn geta kallað það þvingun eða óréttlæti en við erum að horfa til loftslagsmála og vitum að allt sem hvetur til orkuskipta er jákvætt.