149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:20]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir þá spurningu hvort ég sé sammála honum. Ég ætla hvorki að svara henni játandi né neitandi en vil nefna að það eru gífurlegar álögur á bifreiðaeigendur. Slíkar álögur eru minni á rafbíla nú þegar. Það er einnig sérstakt gjald lagt inn í eldsneytið, svokallað kolefnisgjald, sem var hækkað ekki fyrir löngu síðan. Það eina sem ég er að tala um í fyrirvörum mínum er að þeir sem eiga bensínbílana séu ekki rukkaðir tvöfalt, heldur að þeir borgi veggjöldin eins og hinir og síðan standi öll hin gjöldin óbreytt. Við erum að tala um fjöldann allan af gjöldum. Ég er að tala um að við komum á móts við þá bifreiðaeigendur þannig að þeir borgi ekki, sérstaklega ekki þeir sem ferðast lítið, meira en áður. Ég er ekki að tala um að ekki eigi að hvetja til orkuskipta, alls ekki, en ég tel muninn vera nægan sem stendur. Það er næg hvatning nú þegar til að skipta yfir á rafbíl.