149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins aftur að málinu. Ef við lækkum bifreiðaskatta eða eldsneytisgjöld á bensín- og olíubíla erum við náttúrlega að lækka framlög í samgönguáætlun, sem er undirstaðan undir öllu saman. Ég ætla að taka smá dæmi, stærðargráðuna. Tökum 10.000 km akstur á eintómum gjaldaliðum, á bíl sem kostar 100 kr. að keyra á kílómetra, eins og Subaru-bifreiðin mín. Það verður þá 1 milljón á ári fyrir 10.000 km. Nú skulum við setja veggjöldin á þá upphæð sem hv. þingmaður nefndi, 150 kr. að meðaltali á ferð. Eftir 200 ferðir verða það 30.000 kr. Þetta er stærðargráðan. Ég er ekki að biðja ykkur um að taka hana bókstaflega en þetta er samt stærðargráðan fyrir 10.000 km akstur, miðað við að ég eyði í 10.000 km akstri, milljón krónum í afskriftir og tryggingar og eldsneyti og allt það. Svo er það ávinningurinn, við skulum búa til hálfan lítra af bensíni, við skulum búa til 7 mínútna styttingu á aksturstíma, 10% minni útblástur, og akstur á vegi sem er miklu öruggari en hinn. Það er ávinningur af því að borga þessar 30.000 kr. Þetta eru ekki álögur, heldur ávinningur. Þannig verður maður að horfa á það. Þetta segir mér að miðað við aksturskostnað í reynd er ekki um að ræða upphæðir sem skipta gríðarlegu máli, þær skipta máli en ekki gríðarlegu máli. Er hv. þingmaður sammála því?