149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð yfir þetta mál. Það eru margir áhugaverðir fletir sem hv. þingmaður veltir hér upp. En þar sem ég veit að þingmaðurinn situr einnig í fjárlaganefnd er mér svolítið hugleikið að vita meira um þessi áform. Þau eru reyndar fjarska lítið útfærð og mjög óljós í öllu, nema það er ljóst að það á að reiða sig á einhverja óskilgreinda gjaldtöku í framtíðinni, en samt sem áður eru gefin fyrirheit um talsvert umfangsmiklar opinberar framkvæmdir. Um leið sækir meiri hluti nefndarinnar sér skjól hvað það varðar að sinna ekki nauðsynlegum nýframkvæmdum, t.d. hér á suðvesturhorninu, í því að í þær verði ráðist síðar með öðrum hætti og þær fjármagnaðar af öðru fé.

Var einhver umræða í nefndinni um það hvernig þetta rímaði við lög um opinber fjármál, hvernig þetta rímaði við þá áætlun sem ríkisstjórnin hefur þegar sett fram, þ.e. fjármálaáætlunina? Aftur og aftur er klifað á því í ræðum hv. þingmanna meiri hlutans að hér um sé að ræða fullfjármagnaða og forgangsraðaða samgönguáætlun, sem mér finnst alveg ágætur brandari út af fyrir sig. En var einhver umræða í nefndinni um það hvernig þetta rímar við áætlunina og hvernig búa þarf um hnútana í svona viðbótarframkvæmdum? Stefnan virðist vera að stofna eitthvert opinbert hlutafélag, setja þar inn umtalsverðar fjárhæðir í opinberum skuldum til að ráðast í opinberar framkvæmdir, sem hvergi er minnst á einu orði í gildandi fimm ára fjármálaáætlun eða fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar.