149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:54]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því enn og aftur að fá að ræða þetta velferðarmál númer eitt sem samgöngumálin eru. Það gefur augaleið, sérstaklega ef við tölum um umferðina þar sem umferðarslys kosta samfélagið um 50 milljarða á ári, að það er þjóðhagslega hagkvæmt að efla samgöngur. Þannig dregur úr umferðarslysum, unnið er að umhverfismálum og greiðari samgöngum og dregið úr sóun. Allar samgöngubætur, hver einasta ein, meira að segja Vaðlaheiðargöngin, auka hagvöxt í landinu og efla atvinnusvæði, atvinnusóknarsvæði og atvinnulíf. Það gagnast okkur. Aukinn hagvöxtur gagnast okkur beint í velferðarmálunum. Fyrir utan það að við drögum úr kostnaði og þeirri miklu sorg sem fylgir umferðarslysum drögum við líka úr álagi á öll okkar kerfi, eins og löggæslu og aðra viðbragðsaðila, sjúkraflutninga, slökkvilið, björgunarsveitir og svo slysadeildirnar, sjúkrahúsin, endurhæfinguna, almannatryggingar og lengi mætti telja. Þetta er augljóst.

Þá er best að fara aðeins yfir sögu málaflokksins undanfarin ár á þinginu. Það verður að segjast eins og er að hann hefur ekki fengið athygli í samræmi við hversu mikilvægur hann er og hversu miklu hann skiptir okkur í velferðarmálum, sem við erum alltaf að ræða og þarf að finna lausnir til að auka fjármagn í og finna leiðir til að draga úr vexti þar, af því að við viljum auka velferðina. Málaflokkurinn hefur ekki fengið verðskuldaða athygli, ekki í fjárlögum, ekki í fjármálaáætlunum og ekki í störfum þingsins. Þótt mikil og háleit markmið komi fram á tyllidögum var síðast í fjárlögum það dregið saman sem átti að auka í samgöngurnar um 400 milljónir í vegina, 500 milljónir í samgöngurnar í heild sinni.

Það hefur gengið mjög hægt að auka fjárframlögin til samgöngumála gegnum fjárlagavinnuna á Alþingi, það verður að segjast eins og er. Flestar breytingartillögur við fjárlögin og í umræðum í lok desember, þegar við ræddum fjárlögin á lokametrunum, voru einhvers staðar annars staðar en í samgöngumálum. Það bættist ein og ein samgöngutillaga við en fókusinn virðist ekki vera á þeim málum.

Það eru margar aðrar leiðir sem hægt er að fara í málaflokkinum. Í tengslum við umræðuna um þjóðarsjóð hefur verið talað um hvort þeir fjármunir sem eru þar ættu að fara í innviðina. Mikið hefur verið talað um sölu eigna og ég styð heils hugar þá leið að við reynum að losa um eignir ríkisins til að fara í þjóðhagslega mikilvæga innviðauppbyggingu. Svo er það forgangsröðun fjármuna sem ég kom inn á áðan. Það sem við setjum í samgöngur núna er í notkun einhvers staðar annars staðar, þannig að eitthvað hlýtur undan að láta ef við aukum í samgöngur.

Miðað við stöðuna og hvað allt hefur gengið erfiðlega er ég nokkuð sáttur með þessa vinnu, samgönguáætlun og meirihlutaálitið með henni. Í nefndarálitinu er komið með lausnir á mörgum vandanum í samgöngumálum, til að mynda hvernig hægt sé að stórauka uppbyggingu vegakerfisins, sem hefur verið a.m.k. áratugum á eftir hinum norrænu löndunum og öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Frá því árið 1980 höfum við verið áratug á eftir í uppbyggingu samgöngukerfis okkar, sem er kannski ekkert skrýtið þar sem við erum fámenn þjóð í stóru landi. En við verðum að auka viðhald vega. Við verðum að auka nýframkvæmdir til að bregðast við auknum umsvifum í vegakerfinu. Það fylgir því líka heilsársferðaþjónusta, stærri atvinnusvæði, breyttir búskaparhættir. Það þarf aukna þjónustu á vegunum. Það skiptir gríðarlegu máli.

Eins og ég kem betur inn á eftir erum við með lausnir í þeim málum, kannski ekki draumalausnir en fundnar hafa verið leiðir út úr vandanum sem geta komið tiltölulega hratt til framkvæmda.

Flugstarfsemi hefur aukist gríðarlega hér á landi undanfarin ár sem hefur orðið til þess að flugöryggi er ógnað. Í nefndarálitinu er komið með lausnir á þeim málum, sem ég tel mjög mikilvægar. Ég held að innanlandsflugið sé mikilvægast. Flestir einstaklingar nýta sér það. Það eru stærstu almenningssamgöngurnar með tilliti til fjölda notenda. Þarna eru einnig lausnir í innanlandsfluginu, til að efla það.

Svo er líka fjallað um það sem ég tel vera tímamótasamkomulag, sem er komið áleiðis á milli samgönguyfirvalda og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu varðandi hvernig við byggjum upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þar er margt undir og þá vil ég nefna skipulagsmálin, hvernig hægt er að greiða umferð í gegnum höfuðborgina, milli landsvæða, hvernig hægt er að klára skipulagsmál til að koma Sundabraut af stað og hvernig hægt er að klára skipulagsmál til að bregðast við aukinni umferð og byggja upp fjölbreyttan samgöngumáta, hjólaumferð, gangandi vegfarendur, almenningssamgöngur. Þarna er ekki verið að ræða bara eina lausn heldur heildarlausn og samkomulag milli aðila um hvernig þeir fari saman í þau verkefni.

Mikið er fjallað um mikilvægi hafna. Farið er yfir ferjur og uppbyggingu þeirra og þar er rafvæðing og allt það og svo sjóvarnirnar, sem eru enn þá mikilvægari. Þetta sýnir hvað samgöngumálin er fjölbreytt. Allt sem við fjöllum um tengist líka umhverfismálum og loftslagsmálum.

Álitið er langt og viðamikið og komið inn á gríðarlega marga þætti, auk þess sem það eru markmið um umferðaröryggi og greiðar og umhverfisvænar samgöngur.

Ég verð því að segja að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með minnihlutaálitið sem fjallar eingöngu um mjög afmarkaða þætti og er ekki komið inn á fjölbreyttar samgöngur um allt land. Þetta eru að mestu afmarkaðir þættir á höfuðborgarsvæðinu. Í álitinu eru einhverjar gamlar tillögur sem eru notaðar í hverjum einasta málaflokki sem er vesen með og minni hlutinn notar til að berja á stjórnendum, þ.e. að hægt sé að fjármagna þetta með veiðigjöldum og minnka afganginn og ábatinn af því verði svo mikill að ríkið eigi að setja pening í það. Það segja líka allir að ábatinn sé gríðarlegur við að hækka bætur almannatrygginga þegar við fáum það til baka í skatttekjum. Það segja allir að hagvöxturinn aukist töluvert ef við setjum meira í menntamálin. Sú umfjöllun hefur ekki gengið upp í þinginu en þetta eru einu lausnirnar sem minni hlutinn fjallar um í álitinu, þær sem hefur sýnt sig að ganga ekki upp. Ég skrifaði hjá mér sem athugasemd við minnihlutaálitið að landsbyggðin væri gleymd. Við þurfum að hugsa um samgöngurnar heildstætt, hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi, að þær gagnist alltaf öllum landsmönnum. Það hefur löngu sannað sig að byggir upp byggð í landinu.

Þá ætla ég að fara í lausnirnar hverja fyrir sig. Fyrst eru það veggjöldin. Af hverju förum við þá leið? Eins og ég sagði áðan er það ekki endilega draumaleiðin en þetta er sú leið sem þeir gestir sem koma til landsins og nota vegakerfið með okkur þekkja hvað best frá heimalandi sínu. Sú leið eykur þátttöku þeirra og um leið hjálpar okkur, fámennri þjóð, að byggja upp vegakerfið. Allt að 50%, miðað við reynsluna sem við höfum af Hvalfjarðargöngunum, geta komið frá gestunum okkar sem nota má í uppbyggingu vegakerfisins. Svo skipta atvinnusvæðin á höfuðborginni og í nágrenni við hana og annars staðar á landsbyggðinni því með sér. En landsbyggðarfólk mun ekki síður greiða veggjöld þar sem það þarf að kom reglulega til höfuðborgarinnar til að sækja alla stjórnsýslu, heilbrigðisþjónustu, menningu og annað.

Hér erum við að fjalla um á hvaða forsendum Alþingi Íslendinga er tilbúið að fjalla um veggjöldin. Svo er framkvæmdarvaldinu falin frekari útfærsla á því. Allflestir gestir sem komu fyrir nefndina voru sammála um að ekki væri hægt að bíða lengur eftir frekari samgöngubótum og voru hlynntir því að fyrst ekki hefði tekist að fara neinar aðrar leiðir undanfarin ár yrðu skoðaðar nýjar leiðir, eins og veggjöld, til að flýta fyrir. Þá voru það einmitt forsendurnar sem skiptu máli. Við erum að tala um forsendur sem svipar að mörgu leyti, ef ekki flestu leyti, til þess hvernig Hvalfjarðargöngin voru byggð upp, sem sagt að gjöldin sem verða innheimt fari í það að flýta framkvæmdum á ákveðnum stað, gera framkvæmdina betur úr garði gerða en hefði ella orðið, fjármögnuð beint af samgönguáætlun. Þannig eykst umferðaröryggi og ábati skapast fyrir vegfarendur með styttri ferðatíma, minni eldsneytisneyslu og auknu öryggi. Það þarf að taka mið að því, að ekki sé verið að auka álögurnar á þá sem aka um vegina og að gjaldtökunni verði hætt þegar viðkomandi umferðarmannvirki hefur verið greitt upp að fullu. Við þá vinnu þarf að vera skilvirkni og gagnsæi og nýjustu tækni beitt svo að ekki sé tafið fyrir umferð og rekstrarkostnaðurinn verði ekki of mikill.

Við höfum verið að taka slík gjöld í formi bílastæðagjalda í þjóðgörðunum okkar, í Vatnajökulsþjóðgarði og Þingvallaþjóðgarði. Ég hef ekki orðið var við annað en að ferðamenn séu almennt sáttir við það, þekkja slíkt fyrirkomulag og greiða það og hafi töluverðan greiðsluvilja. Það fyrirkomulag er með myndavélainnheimtu, þannig við höfum einhverja reynslu af slíku og hefur það gengið nokkuð vel.

Ég var að tala um fjármögnunina áðan og þá kemur alltaf upp spurningin: Af hverju setjum við ekki fjármunina sem við erum að innheimta í vegakerfið? Það er einmitt það sem við gerum. Í stuttu máli voru ákveðin gjöld, bensíngjöld, olíugjöld og bifreiðagjöld, eyrnamerkt vegaframkvæmdum, 42% eða 19 milljarðar á þessu ári eiga að vera eyrnamerktir vegagerð. Samkvæmt samgönguáætluninni sem við erum að samþykkja hér fara 33 milljarðar í nýframkvæmdir, viðhald og þjónustu vega, sem sagt 14 milljörðum meira en lögin gerðu ráð fyrir. Hin almennu gjöld, sem voru aldrei eyrnamerkt vegagerð, nýtast samt í samgöngukerfið. Eins og ég sagði áðan er það fjölbreytt og fer í sjóvarnir, hafnir, flug og almenningssamgöngur, en ekki síst í eftirlit lögreglu á vegunum og til viðbragðsaðila, slökkviliðs, sjúkraliðs og bráðaþjónustu sem og almannatrygginga. Fjármunirnir skila sér klárlega og ef við ætlum að taka meira af þeim fjármunum þurfa þeir að fara annað.

Ég vil koma aftur inn á flugið en gríðarlega mikilvægt er að fundnar séu lausnir til að hraða uppbyggingu varaflugvalla til að tryggja öryggi í millilandaflugi og vinna að loftslagsmálum. Ef við tryggjum ekki það öryggi að flugvélar í millilandaflugi geti skráð íslenska flugvelli sem varaflugvelli þarf að nota mun meira eldsneyti en eins og staðan er núna eru íslensku varaflugvellirnir, miðað flugumferð, of litlir til að taka við slíkri umferð. Þess vegna eru þær lausnir sem við kynnum hér mikilvægar, svokölluð farþegagjöld eða þjónustugjöld og það að færa Reykjavík, Akureyri og Egilsstaði inn í efnahag Isavia. Við höfum ekki tíma til að fresta því frekar. Við verðum að senda skýrar línur til samgönguyfirvalda um hvernig þau eiga að vinna að þessu.

Með flugstarfsseminni en er líka komið inn á mikilvægi þess, aftur með öryggið í huga, að opna fyrir lendingu minni flugvéla í millilandaflugi á flugvöllum í Hornafirði, Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Hefur rannsóknarnefnd flugslysa t.d. bent á það.

Mikilvægt er að við styðjum almenningssamgöngur með skosku leiðinni, eins og var mikið rætt í dag. Við verðum að byggja innanlandsflugvellina upp á nýtt. Við komum sérstaklega inn á að laga þarf yfirlagið á mörgum stöðum, eins og í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Annars þarf að skerða þjónustu á þeim stöðum. Það eru ein mestu lífsgæðin í hverju sveitarfélagi í vissri fjarlægð frá höfuðborginni að hafa tvö flug á dag til sín. Það eru forsendur ákveðinna lífsgæða. Svo þurfum við líka að ræða uppbyggingu Isavia og hvaða áhrif hún hefur á innviði í nærumhverfi sínu, en ég hef ekki tíma til að fara að yfir það núna.

Ég vil líka tala um það sem ég kom inn á áðan, samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu samkomulagi er gert ráð fyrir að hægt sé að hefja uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þá á ég við almenningssamgöngur, einkabílaumferð, þungaflutninga og einnig hjólandi og gangandi vegfarendur, þannig að hægt sé að fara frá Vesturlandi yfir á Reykjanesið og frá Suðurlandi yfir á Vesturland án þess að lenda í umferð höfuðborgarinnar, að fara á mislægum samgöngurásum í gegn. Gríðarlega mikilvægt er að farið sé af stað með það.

Við ræddum mikið mikilvægi hafna. Ein mestu útflutningsverðmætin okkar í sjávarútvegi eru í Landeyjahöfn og mikilvægt að hún virki. Hún er grunnurinn að atvinnustarfsemi í mörgu á landi, þótt mikið af framkvæmdunum séu undir sjávarmáli, og eru ferðaþjónustan, fiskeldin og fleiri nýir útflutningsaðilar í íslensku efnahagslífi farnir að nýta sér hafnirnar.

Huga þarf að skipulagsmálum. Ef áform um veggjöld ganga eftir og við getum farið í átak í samgöngumálum er mikilvægt að Vegagerðin og sveitarfélögin séu tilbúin með skipulag og hönnun þannig að hægt sé að fara hraðar í framkvæmdir. Einnig þurfum við að hafa í huga að fara þarf í umhverfismat og annað slíkt. Ef framkvæmdir eru komnar inn á samgönguáætlun og taldar þjóðhagslega mikilvægar mega skipulagsmálin ekki tefja fyrir. Það skal hafa í huga við endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Í álitinu fjöllum við um samskipti Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna, sem komið var inn á áðan. Þau skipta miklu máli af því að það eru sveitarfélögin sem hafa sérþekkingu á aðstæðum sínum.

Undir lokin langar mig að nefna að þetta snýst allt um að auka umferðaröryggi. Þess vegna var mjög gaman að fá til okkar fulltrúa unga fólksins, ungmennaráð Grindavíkur sem hafði haldið ráðstefnu um umferðaröryggismál og boðið fleiri ungmennaráðum til sín. Það er góður kafli á blaðsíðu 12 í nefndarálitinu um þetta mál og bið ég fólk að kynna sér hann.

Ef við erum að fara í mikla uppbyggingu á vegakerfinu verðum við að ákveða hvernig það verður gert, setja það upp í umferðarmódel. Við verðum að ákveða hvaða stöðlum við viljum fara eftir, hvaða tegund af vegum við viljum byggja upp til að tryggja öryggi og fara þá eftir svokölluðum EuroRAP-stöðlum, alla vega þannig að þeir uppfylli kröfur EuroRAP. Umferðaröryggi skapar svo miklu betri lífsgæði og meiri uppbyggingu í þeim tækifærum sem við höfum.

Ég kom inn á flugið og ætla á lokasekúndunum að nefna uppbyggingu flugnáms á Íslandi. Það er að byggjast mikið upp og þá þurfa að vera flugvellir og aðstaða fyrir flugnámið, þannig að við getum sinnt því, svo að við getum fylgt þeim vexti eftir sem við sjáum í ferðaþjónustunni og í þeirri mikilvægu atvinnugrein sem flugið er.