149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í umræðum fyrr í vetur um fjárlög fyrir nýhafið ár, og reyndar síðastliðið vor í umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, varð mér tíðrætt um þá einföldu staðreynd að útgjaldagleði ríkisstjórnarinnar myndi leiða til óhjákvæmilegra skattahækkana. Það væri alveg ljóst að ekki væri hægt að auka útgjöld jafn mikið og stefnt var að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar öðruvísi en að hækka skatta. Því var sífellt neitað, raunar var því haldið fram að til stæði að lækka skatta. Hér er auðvitað ekki verið að tala um annað en að fjármagna samgöngubætur með skattahækkunum. Við getum öll verið sammála um mikilvægi samgöngubóta. En ríkisstjórnin er að auka útgjöld um 25% á fjögurra ára tímabili. Var ekki hægt að forgangsraða þessu með öðrum hætti, hv. þingmaður?