149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að benda á að ég tel þetta ekki sem beina skattahækkun þar sem það er lagt upp í forsendunum með þessu, að það sé einhver ábati fyrir þann sem greiðir veggjöldin, að hann dragi úr kostnaði sínum og annað slíkt. Ef vel tekst til verður minni þrýstingur á að hækka iðgjöld og annað, fyrir utan svo bónusinn að fá betra umferðaröryggi og annað þegar á að eyrnamerkja þetta hvað með öðru.

Hv. þingmaður talar um að það hlyti að vera hægt að forgangsraða fyrir 5–7 milljarða á ári í svona mikla útgjaldaaukningu. Það eru einmitt það sem hefur verið gert. Bætt var við 5 milljörðum í samgöngumálin núna, en ákallið fyrir samfélögin er 15 milljarðar á ári, ofan á þá 5 sem við vorum að bæta við. Það segir sig sjálft að ef við ætlum að forgangsraða öðruvísi verður eitthvað undan að láta á stærstu útgjaldasviðum ríkissjóðs.