149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom inn á áhugavert atriði í lok ræðu sinnar um EuroRAP. Ég ætla aðeins að geyma það þar til í seinna andsvari eða síðar í þessu. Ég spyr um þær eignatekjur sem á að nýta í samgöngumál og þjóðarsjóð, niðurgreiðslu skulda og guð má vita hvað. Því eftir því sem ég tel þetta upp þá þurrka niðurgreiðslur skulda upp arðgreiðslurnar sem gert er ráð fyrir í þeim hluta af eignatekjum. Eftir eru vaxtatekjurnar sem hafa farið mjög lækkandi miðað við fyrri fjármálaáætlanir. Ef eitthvert svigrúm á að vera, sem var að myndast varðandi eignatekjurnar, þá velti ég því fyrir mér hvaðan það á að koma, ef það á líka að fara í þjóðarsjóðinn.

Örstutt varðandi EuroRAP í lokin, ef ég næ því. Það kom í ljós á fundum nefndarinnar að u.þ.b. helmingur veganna sem eru flokkaðir samkvæmt flokkunarkerfi EuroRAP, t.d. C8-vegur, eru í raun C7-vegur, af lægri gæðum. Þannig að í heildina (Forseti hringir.) erum við í miklu meiri vandamálum varðandi samgöngukerfið en lítur út fyrir á bókunum.