149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Innviðaþörfinni verður alls ekki svarað með veggjöldum einum, svo að það sé sagt. Veggjöldin eru bara til að fara í mikilvægustu og brýnustu framkvæmdirnar. Fjárfestingarþörf í samgöngukerfinu er örugglega um 400 milljarðar, þannig að við höfum fulla þörf fyrir að fá eitthvað úr eignatekjunum inn í samgöngurnar þrátt fyrir veggjöldin. Svo höfum við líka miklu fleiri innviði sem við þurfum að byggja upp hér eins og hjúkrunarheimili, dreifikerfi raforku og lengi mætti telja.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir um vegakerfið og öryggi þess. Þess vegna er ég að tala um hversu mikilvægt það sé og það sé hluti af innviðaþörfinni í samgöngukerfinu, þ.e. uppfærsla veganna. Við þurfum að uppfæra vegakerfið. Hvort það er C8-vegur eða C7-vegur — þó að um sama vegflokkinn sé að ræða getur það dugað misvel eftir því í hvaða aðstæðum vegurinn er, hvernig landslagið er, hver umferðarþunginn er og annað. Þannig að það allt skiptir svo líka máli.