149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:28]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er svolítið áhugavert að sjá hvernig umræðan þróast oft og verður stór um einhver minni mál. Svo þegar málin eru virkilega stór og eiga kannski að hafa áhrif er umræðan hvað minnst um þau.

Þá vil ég benda á að þingmenn, sérstaklega í hv. fjárlaganefnd og hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ættu að hafa meiri áhyggjur af því þegar stórar og miklar framkvæmdir eru á einum stað en af framkvæmdum eins og þeim sem við ræðum um í samgönguáætlun sem dreifast um allt land.

Þær framkvæmdir sem Isavia stendur fyrir við Keflavíkurflugvöll hafa bein áhrif á samgöngukerfið. Reykjanesbrautin er löngu sprungin og allir innviðir í kringum flugvöllinn. En vegaframkvæmdum getur verið dreift út um allt land og það eru fjölbreyttari verktakar sem koma að því og annað slíkt.