149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á að forgangsröðunin í þessu er samkvæmt umferðaröryggi. Það þarf að laga vegi um allt land. Það er það sem samgönguáætlunin gerir, lagar vegi um allt land þar sem mikið er um umferðarslys og líka miðað við umferð miklar líkur á umferðaróhöppum.

Þess vegna erum við sammála þeirri forgangsröðun sem birtist í samgönguáætluninni. En allflestir, ef ekki allir, þeir vegir sem við leggjum til að veggjöldin komi á, sem liður í fjármögnun og flýti framkvæmdum, eru nú þegar fremst í samgönguáætlun; Reykjanesbraut, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur, en það þarf bara miklu meira til að klára þá vegi og það tekur alltaf langan tíma að klára þá. Það er vandamálið sem við erum að leysa með þessum veggjöldum.