149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég reyni að svara þessum spurningum á einni mínútu. En jú, brýnustu verkefnin eru akkúrat þau sem fjármögnuð eru með veggjöldunum, enda er þeim forgangsraðað fremst í samgönguáætlun. Þau verða bara ekki kláruð í þessari samgönguáætlun. (HVH: Af hverju ekki?) Þau verða kláruð á allt of löngum tíma af því að litlir fjármunir eru til skiptanna og þess vegna hefur ekki tekist að klára. Við erum að reyna að finna lausn á því, m.a. með því að fá gestina okkar sem nota vegakerfið til að hjálpa okkur við að byggja upp vegakerfið, eins og stóriðjan hjálpar okkur við að byggja upp dreifikerfi raforku og annað slíkt.

Við þurfum að fá aðstoð við að byggja þetta upp af því að við erum fámenn þjóð í stóru landi.

Önnur leið er vissulega kostur, en það sem skiptir mestu máli er að það sé ábati fyrir þann sem nýtir samgöngumannvirkið. Það styttir ferðatímann, eykur öryggi, dregur úr eldsneytisneyslu og sparar tíma, sem er mjög hagkvæmt. Það er aðalatriðið.

Varðandi skosku leiðina eru það byggðasjónarmið. Svo (Forseti hringir.) er líka verið að endurraða þeim fjármunum sem eru í almenningssamgöngum og rekstri flugvalla eins og er í dag.