149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir ítarlegt minnihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar. Þótt auðvitað sé ýmislegt ágætt í þessari samgönguáætlun og ýmsar framkvæmdir sem við ættum að geta sameinast um ætla ég fyrst og fremst að ræða um hvernig á að reyna að fjármagna hana og hvaða leiðir við gætum farið í því. Við erum auðvitað öll sammála um að það þarf að gera stórátak í samgöngumálum. Vegir okkar standa langt að baki samgönguneti samanburðarþjóðanna og það er bara pólitísk ákvörðun um að byggja jafnt og þétt upp og láta ekki innviðina grotna niður eins og raun ber vitni. Í gríðarlegri uppsveiflu síðustu ára létum við algerlega vera að gangast við þeirri ábyrgð, bæði þegar tekjur ríkissjóðs voru meiri og eins þegar við höfðum skýrari og betri möguleika til að sækja gjald, t.d. af ferðamönnum, en nú þegar fer að síga á verri hlið.

En allt er þetta auðvitað spurning um öryggi. Það eru auðvitað allt of mörg óþarfaslys sem eiga sér stað og kosta samfélagið gríðarlegar upphæðir, svo að ekki sé talað um þá harmleiki sem þau hafa í för með sér. Sérfræðingar hafa metið það svo að efnahagslegur kostnaður samfélagsins við slys sé um 40–60 milljarðar á ári. Það er margföld sú upphæð sem við þurfum til að bæta í og laga það sem upp á vantar. Þá er ótalin sú lífæð sem vegirnir og samgöngurnar um allt land eru, bæði til að tryggja að við komum vöru á milli staða, til að við getum byggt upp öruggt og gott atvinnulíf, og ekki síst til þess að fólkið geti sótt nauðsynlega þjónustu. Þessu er ekki síst mikilvægt að halda til haga í mjög stóru en fámennu landi. Ísland býr nefnilega við þá sérstöðu, ásamt þremur til fjórum löndum í heiminum, að hér búa um 70% allra landsmanna á mjög afmörkuðu svæði, suðvesturhorninu. Það þarf að finna lausn og vanda sig við leiðir sem tryggja þéttbýlasta svæði landsins nauðsynlegar og góðar samgöngubætur um leið og hinar dreifðu byggðir búa líka við öryggi og ásættanlegar samgöngur.

Vegtollar og veggjöld geta auðvitað verið ágætisaðgerðir til að ráðast í einstakar framkvæmdir. Það má hugsa sér flýtiframkvæmdir til að stytta leið. Það má líka hugsa sér að setja slíkt á til þess að vera með einhvers konar aðgangsstýringu af umhverfisástæðum eða til að greiða fyrir samgöngum. En hér á að bjóða upp á allt annan hlut. Hér er verið að tala um vegaskatta. Um þá gilda aðeins önnur lögmál. Það er sem sagt verið að innheimta skatta á afmörkuðum stöðum, án tillits til þess hvert fjármagnið rennur. Þegar slíkar hugmyndir dúkka upp þarf að ráðast í alvarlega greiningu, m.a. á því á hvaða hóp skattheimtan leggst þyngst, á hvaða landshluta, á hvaða aldurshóp og ekki síst á hvaða tekjur. Sundabraut er ágætisdæmi um góða framkvæmd sem hægt væri að kosta með gjöldum af því að þar er önnur leið; en ýmsir aðrir staðir á landinu, litlir bæir sem lokaðir eru af með háum fjöllum og sjó, eru kannski verra tilfelli.

Nú er líka rétt að minnast á að það getur verið og er misvægi í samgönguáætlun hvað varðar uppbyggingu eftir landshlutum, eftir kjördæmum. Ég kallaði fyrstu áætlun hæstv. ráðherra Sigurðar Inga Jóhannessonar frá því í haust: Alltaf gleymist Austurland. Þar var gert ráð fyrir, og mér sýnist enn þá, um 3,3 milljörðum á meðan hans eigið kjördæmi, Suðurkjördæmi, fær 15. Þetta eru allt hlutir sem þarf að skoða. Það að stjórnvöld síðustu ára hafi vanrækt það verkefni, jafnvel á stórkostlegum uppgangstíma, afsakar það engan veginn að ætla að hrista fram úr erminni óljósar hugmyndir sem þjóðin hefur ekki haft tækifæri til að tala um, sem þingið hefur ekki heldur getað rætt nægilega mikið um og sem stjórnarmeirihlutinn virðist ekki átta sig á til fulls heldur og er býsna reikull og ósammála þegar verið er að spyrja út í einstakar hugmyndir. Enda eru tillögurnar ekkert útfærðar heldur á að samþykkja samgönguáætlun með ákveðnum hlut en restina, nauðsynlegar framkvæmdir, á svo að fjármagna með einhverjum óljósum hugmyndum sem útfæra á uppi í ráðuneyti án þess að við höfum neina tryggingu fyrir því að náðst geti góð lausn í því máli sem landsmenn allir geta sætt sig við.

Ef ráðast á í slíka grundvallarbreytingu sem hér er til umræðu þarf hún að byggja á faglegum rannsóknum og vandaðri vinnu sem tekur tíma og miklu lengri tíma en okkur hefur verið skammtaður hér. Hana þarf síðan að ræða á þinginu og ræða nógu lengi til þess að sem breiðust sátt náist. Þetta leiðir nefnilega umræðuna að öðru sem heitir samráð. Í fyrsta lagi er beinlínis talað um það í stjórnarsáttmálanum að auka skuli veg þingsins og samtal milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þá hefur hæstv. forsætisráðherra beinlínis oft í ræðum talað um að mál sem varði mikla sameiginlega hagsmuni og séu hugsuð til langs tíma þurfi að vinnast í breiðri sátt. Er hægt að tala um eitthvað svoleiðis í þessu máli, herra forseti? Ég held ekki.

Í aðdraganda síðustu kosninga töluðu þar að auki flestir flokkar, ekki síst stjórnarinnar, og ábyggilega hæstv. samgönguráðherra skýrt gegn vegasköttum og veggjöldum. Þess vegna var það ekkert óvænt síðasta haust, þegar hæstv. ráðherra lagði fram samgönguáætlunina, að ekkert var vikið að þessu. Raunar var sú áætlun um margt afleit og hana hefði þurft að ræða. Hún mismunaði landshlutum og gerði ekki ráð fyrir nægilegu fé. En Samfylkingin og fleiri flokkar hér hafa þó bent á möguleika til að afla tekna í það. Skýringin á þessu í haust var auðvitað bara vangeta ríkisstjórnarinnar til að afla tekna og a.m.k. viðhalda tekjustofnum sínum, sem ekki hefur tekist eða ekki verið vilji til.

En á meðan þessi umræða fór fram túraði hluti af Sjálfstæðisflokknum, með hv. þm. Jóni Gunnarssyni fremstum í flokki — hann stóð fremst á sviðinu með míkrófóninn og talaði niður hugmyndir ráðherra — og bauð upp á annars konar lausn, sem er að miklu leyti núna, ef ég skil rétt, grunnurinn að umræðu dagsins. Það hlýtur að vera einsdæmi í íslenskri pólitík að óbreyttur stjórnarliði velti nánast ráðherra sínum, ráðherra samstarfsflokks, úr sessi og taki sjálfur tímabundið við krúnunni. Hæstv. samgönguráðherra birtist hér og virðist vera einhvers konar ráðherra að nafninu til. En það er verið að stýra málum annars staðar að en úr ráðuneyti hans.

Það er auðvitað ágætt að þingið taki til sín einhver völd en það er býsna sérkennilegt þegar þessi átök birtast innan stjórnarmeirihlutans. Er þá nema von að ekki sé hægt að uppfylla stjórnarsáttmálann um meiri samvinnu þegar svo er í pottinn búið að stjórnarliðar geta ekki einu sinni verið sammála? En að því slepptu er Samfylkingin á því að nauðsynlegt sé að ráðast í umbætur og fjármagna til fulls það plagg sem við höfum verið að ræða. Við viljum setja framkvæmdir sem Vegagerðin telur að eigi að vera í forgangi fremst á dagskrá, að þær verði fjármagnaðar úr ríkissjóði, enda er það brýnt af öryggisástæðum. Þar getum við nefnt Kjalarnesveg, hættulegasta veg landsins. Við getum nefnt Reykjanesbraut, Arnarnesveg og Vesturlandsveg. Ég held að þjóðhagslegur ábati af þessum framkvæmdum myndi örugglega borga sig upp á áratugum. Á meðan er gert ráð fyrir að veggjöld borgi þetta upp á tveimur áratugum, ef ég skil rétt.

Samfylkingin vill auk þess að ráðist sé í mikla og nauðsynlega uppbyggingu um allt land af því að það er líka mikilvægt. Þar höfum við lagt áherslu á almenningssamgöngur vegna þess að þær skipta gríðarlega miklu máli. Þær taka á mjög mörgum þáttum okkar samfélags. Þær snerta efnahag landsmanna — samgöngukostnaður Íslendinga er óvenjuhár — búsetuval, umferðarþunga, öryggismál og ekki síst loftslagsmál, sem ég hélt að væri höfuðáhersla þessarar ríkisstjórnar. Það er auðvitað eitt mikilvægasta og stærsta verkefni sem við og heimurinn stendur frammi fyrir í dag.

Þá hlýt ég að lýsa sérstökum áhyggjum af metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar þegar kemur að borgarlínu, sem er forsendan fyrir farsælli byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu til lengri tíma. Hún mun spara stórkarlaleg, úr sér gengin og gamaldags samgöngumannvirki sem kosta gríðarlega fjármuni. Borgarlínan er ekki síst forsenda fyrir því að Ísland geti staðið við loftslagsmarkmið sín. Samgöngur fyrir almenning eru auk þess mjög mikilvægt kjaramál. Við verðum að fara að gera fólki kleift að lifa án þess að eiga og nota einkabíl. Átakshópur í húsnæðismálum, sem starfaði á vegum ríkisstjórnarinnar, undirstrikaði í tillögum sínum mikilvægi þess að flýta uppbyggingu borgarlínu. En samgönguáætlunin gerir einungis ráð fyrir 800 milljónum í verkefnið á næstu árum, sem er bara brotabrot af því sem til þarf.

Árið 2008 var fyrsta ár í sögu mannsins þar sem áætlað er að jafn margir byggju í borg og í sveit. Spár gera ráð fyrir því að árið 2050 muni um 70% allra jarðarbúa búa í borg. Við Íslendingar höfum löngu náð þessu marki án þess að bregðast við. Þessi flutningur úr sveitum í þéttbýli á 20. öldinni varð til þess að flestar borgir hafa á síðustu árum þróast með algjörlega óásættanlegum hætti og ósjálfbærum. Þær hafa byggst upp á forsendum einkabílsins og hinnar bandarísku bílaborgar sem byggir á flokkun og aðgreiningu; gisnir og dýrir innviðir þar sem erfitt er að byggja upp almenningssamgöngur. Þetta, herra forseti, gengur einfaldlega ekki lengur. Vaxi höfuðborgin áfram á sömu forsendum og hún hefur verið að gera verður hún aldeilis ósjálfbær. Við skulum bara muna að loftslagsmál verða eitt af meginviðfangsefnum næstu kynslóðar. Hlýnun jarðar er löngu orðin okkur ljós og þar eru sóun og orkunotkun mannsins langstærsti hluturinn.

Við þurfum þess vegna að hugsa fyrir nýjum og vistvænum orkugjöfum og við getum farið í orkuskipti og við getum við reynt að ýta öllum yfir í rafbíla en það mun ekki leysa nema hluta af vandanum. Stóra leiðin sem við getum gripið til hér til að bæta úr eru bættar almenningssamgöngur í höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu. Við köllum hana borgarlínu. Með skynsamlegri uppbyggingu á þéttbýli eigum við nefnilega líka okkar stærstu tækifæri í baráttu fyrir bættu loftslagi. Borgirnar eru megindrifkraftur efnahagslegs vaxtar flestra vestrænna ríkja og það er mjög mikilvægt að þær byggist upp með hagkvæmum og góðum hætti. Öflug borg hefur áhrif langt út fyrir borgarmörkin þannig að þetta er ekki deila á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Öflug borg þarf á öflugri landsbyggð að halda — en öflugar landsbyggðir þurfa nefnilega líka á skilvirkri og góðri höfuðborg að halda. Þess vegna þurfum við, þó að það sé ekki viðfangsefni þessa frumvarps, að þétta byggð og við þurfum að byggja minna og við þurfum að nútímavæða innviðina til að gera þá skilvirkari. Öflugasta leiðin eru almenningssamgöngur sem hindra brjálæðislega, ónauðsynlega, óskynsamlega útþenslu borganna. Ég ítreka: Þetta er ekki hagsmunir borgarinnar eingöngu. Þetta eru hagsmunir alls landsins og þess verður að sjá stað að vilji sé til þess að fjármagna þennan hlut í samgönguáætlun.

Herra forseti. Nú hef ég eytt talsverðum tíma í að tala um höfuðborgina og þær aðgerðir sem þurfa að fá fjármagn þar. Það er einfaldlega vegna þess að þar búa langflestir landsmenn. Það var hins vegar tekin pólitísk ákvörðun um það fyrir 120–140 árum að sökum fámennis í stóru landi borgaði sig að byggja upp miðlæga, sterka þjónustu á einum stað, spítala, stjórnsýslu, skóla og annað. Þess vegna þurfum við auðvitað líka, til þess að halda byggð í landinu og til að gæta sanngirni, að efla samgöngur um allt land, Austurland, Vestfirði og Suðurland. Og það eigum við að geta. Við eigum ekki að detta ofan í deilur um einstök byggðarlög, um einstaka landshluta. Við eigum hér inni öll að geta náð sátt um að smíða samgönguáætlun sem allir geta sæst á. Það höfum við áður gert þó að við höfum stundum gert það án þess að ná að fjármagna hana.

En Samfylkingin bendir þó á að það er mögulegt, jafnvel við núverandi aðstæður, að fjármagna þessa hluti. Niðurfelling bankaskatts, lækkun veiðigjalda og ýmislegt fleira sem við getum tínt til gæti allt tryggt þessa 13–14 milljarða kr. sem nægðu til þess að fullfjármagna alla áætlunina eins og hún er. Það skulum við svo sannarlega að gera. Það skiptir máli. Þó að það sé eðlilegt að það kosti að reka bíl, að þeir borgi einhvern hluta af því sem eiga hann, skulum við líka horfa á það að við erum búin að byggja upp land, við erum búin að byggja upp borg og bæi, sem gera þér ekki kleift að lifa öðruvísi en að eiga einkabíl. Þá þurfum við líka að hugsa til þeirra sem hafa minnstu peningana og á hvern við erum að leggja mestu álögurnar.

Í þessu dæmi, eins og því er stillt upp, er það klárt að þetta leggst þyngst á efnaminna fólk eða fólk sem hefur sótt í ódýrt húsnæði í nágrannabyggðarlögum höfuðborgarinnar og þarf að koma til vinnu á hverjum degi. Okkur ber beinlínis skylda til að hugsa um þennan hóp. Síðan þegar við höfum byggt upp innviði um allt land sem gera ráð fyrir því að við getum nýtt okkur almenningssamgöngur og þurfum ekki að reiða okkur á einkabílinn — þá skulum við endilega gera það bara mjög óhagkvæmt að eiga hann. En þá þarf að hafa valkost. Í dag hefur fólk ekki valkost. Þú getur ekki sagt við fólk: Seldu bílinn þinn. Það er ekki hægt. Það er ekki hægt í landi sem er svona dreifbýlt og ekki hægt í borg sem hefur teygst miklu lengra út en eðlilegt og nauðsynlegt hefði verið — og hefði verið ef við hefðum byggt á hinu evrópska líkani blandaðrar byggðar sem á rætur að rekja til þeirrar tíðar þegar einkabíllinn var ekki til. Hann er auðvitað upphaf og endir á þeirri stöðu sem við erum í. En fyrst þurfum við að byggja upp alvörualmenningssamgöngur áður en við getum sagt fólki að leggja bílnum. Meðan við getum ekki sagt fólki að leggja bílnum verðum við að taka tillit til þess hverjir geta borgað og hverjir geta það ekki.

Öflugar almenningssamgöngur snúast ekki bara um krónutölur sem fara á milli ólíkra sviða hér á þingi og upp í ráðuneyti. Þær snúast um efnahagsleg og félagsleg tækifæri fólksins í landinu, um atvinnusköpun, um öryggi, um framþróun, um sjálfbærni. Við verðum einfaldlega að vanda okkur betur þegar við erum að fjalla um þetta verkefni.