149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að tala um loftslagsmálin í þessu samhengi. Það er minni koltvísýringur sem fer í loftið í innanlandsfluginu en þegar fólk keyrir á milli staðanna. Það er búið að fara í gegnum þetta. Þetta er mikilvægt atriði og rétt að það komi hér mjög skilmerkilega fram.

Það sem ég kvarta líka yfir í þessu minnihlutaáliti er að það er ekkert um flugöryggismál í landinu. Það er ekki minnst á þau, uppbyggingu flugvallakerfisins, sem hefur verið veigamikill þáttur í vinnu samgöngunefndar síðan í haust. Umsagnir sem hafa borist fyrir nefndina eru mjög ítarlegar og lýsa hversu alvarlegt ástandið er í þessum málum. Mér þykir ansi hratt yfir farið þegar menn minnast ekki á það í þessu ítarlega plaggi upp á fjórar síður. Þetta er nefnilega ekkert sérstaklega ítarlegt þegar svona þættir eru teknir frá sem hefur verið mikil umræða um í samfélaginu síðustu ár og margar umsagnir við samgönguáætlun taka sérstaklega á.

Ég er bara ekki sammála þingmanninum um að þetta sé sérstaklega ítarlegt.