149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér fannst þetta góð ræða hjá hv. þingmanni. Ég var sammála honum um framtíðarsýnina. Hann bauð upp á samtal um hana og mig langar að reyna að eiga það við hv. þingmann án skens og hefðbundins kýtings milli stjórnar og stjórnarandstöðu, og þá um tvennt, annars vegar framtíðargjaldtöku og hins vegar borgarlínu.

Mig langar að fá hv. þingmann á einni mínútu — ég veit að það er hálfósanngjarnt — til að velta því fyrir sér með mér hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðargjaldtöku, þá er ég ekki að tala um í einstök verkefni heldur til framtíðar, þegar við sjáum fyrir okkur að við höfum náð því takmarki okkar að afnema gjaldstofninn bensín- og olíugjöld. Því að ýmsar leiðir eru til í því. Í minnihlutaáliti er talað um að nýta skatttekjur ríkisins. Góðra gjalda vert, en það er ákveðin breyting að við erum þá ekki að taka (Forseti hringir.) sérstakar tekjur og láta þá borga sem nota, heldur erum við að taka þetta af skattstofni. Mig langar að ræða það við hv. þingmann í þessa einu mínútu.