149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisræðu. Ég velti einmitt fyrir mér því sem hv. þingmaður kom að í ræðu sinni varðandi mat á grundvallarbreytingu á fjármögnun vegakerfisins og á hvaða hópa sú fjármögnun leggst hvað þyngst. Ég velti fyrir mér hvort einhver umræða hafi orðið í umhverfis- og samgöngunefnd hvað þann þátt varðar.

Það ætti t.d. að liggja nokkuð ljóst fyrir, miðað við þær hugmyndir sem uppi eru um að leggja veggjöld meira og minna á allar stofnæðar að og frá höfuðborgarsvæðinu, að við erum hér með ansi stóran hóp og stækkandi sem hefur í húsnæðiskreppu höfuðborgarsvæðisins flust búferlum í nágrannabyggðirnar, Árborgarsvæðið, Akranes, Reykjanesbæ, þar sem við sjáum að mikil fólksfjölgun hefur orðið á stuttum tíma. Þetta er oft og tíðum, að ætla mætti, tekjulægri hópur sem sækist fyrst og fremst í ódýrara húsnæði vegna hás íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu en sækir áfram vinnu daglega á höfuðborgarsvæðið sjálft, og væntanlega að stofninum til á einkabíl.

Þá mætti spyrja: Fór fram einhver umræða um það í umhverfis- og samgöngunefnd hvers konar áhrif hugmyndir sem þessar kynnu að hafa á þann hóp og í raun þá grundvallarforsendubreytingu sem gjaldtökuhugmyndir sem þessar hafa í för með sér fyrir búsetuákvörðun þessa tekjulægri hóps sem leitar í hagstæðara húsnæðisverð til að draga úr framfærslukostnaði sínum en er síðan mætt með stórauknum skattálögum á ferðalög sín með þessum áformum?