149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:31]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrirspurnina. Þetta eru ákaflega áhugaverðir punktar sem hv. þingmaður kemur inn á, þ.e. hvort einhver úttekt á lýðfræðilegum eða félagslegum áhrifum veggjalda hafi átt sér stað eða komið fram í nefndarstarfinu. Slíkar úttektir hafa ekki borist okkur í nefndinni. Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið fyrir nefndinni eru afrakstur af vinnu starfshóps hæstv. samgönguráðherra en engin úttekt var gerð á því á hvaða hópa þessar álögur leggjast þyngst. Ég vil líka vekja athygli á því sem hv. þm. Jón Gunnarsson, þá starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hafði uppi í fjölmiðlum þegar hann viðraði hugmyndir um að stórneytendur fengju ákveðinn afslátt af þessu gjaldi. Þá velti ég því fyrir mér hverjir það eru sem borga fyrir þann afslátt til stórneytenda, hvort það séu ekki akkúrat einstaklingar. Þá heggur það nær þeim hópum sem hafa minna á milli handanna.