149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér þykir þetta einmitt bera með sér þessa krónísku óvandvirkni okkar þegar kemur að lagasetningu og stefnubreytingu hjá hinu opinbera. Við höfum á einhverjum vikum kúvent frá því að vera með fullfjármagnaða samgönguáætlun í núverandi skattheimtu í samgönguáætlun sem byggist á algerlega óútfærðum og órannsökuðum hugmyndum um nýja fjármögnunarleið.

Umfang hennar er þvílíkt að ekki er hægt að orða það öðruvísi en að það sé grundvallarbreyting á fjármögnun á samgönguframkvæmdum. Það leiðir reyndar hugann að öðru mjög áhugaverðu sem kom fram í máli hv. þingmanns, sem er einmitt umræðan um skosku leiðina sem við ræðum hér líka, og áhrifin á útblástur eða losun frá innanlandsflugi.

Þegar við lækkum ferðakostnað, aukum tíðni með einhverjum hætti eða gerum ferðina aðgengilegri hlýtur fjölgun ferða að fylgja í kjölfarið, ferðir verða fleiri en ella. Þó svo að hinn þrengri samanburður segi að mögulega sé hægt að sjá, í einhverjum tilvikum alla vega, að flugið sé þá útblástursminna en akstur — mögulega einn maður í bíl um langan veg — þá velti ég fyrir mér hvort umræða hafi orðið um áhrifin af þessu í nefndinni. Hvað þýðir það ef við lækkum ferðakostnað með innanlandsflugi, hvaða áhrif hefur það á ferðatíðni og þar með heildarlosun frá innanlandsfluginu?