149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:34]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson bendir á varðandi gagnrýni mína á niðurgreiðslu á innanlandsflugi, ofan á þá sem fyrir er, verður í þeim tillögum sem væntanlega á eftir að móta enn frekar að gera ráð fyrir fjölgun flugferða. Í niðurstöðum starfshóps samgönguráðherra um þessar tillögur var einmitt kveðið á um fjölgun ferða en engar áætlanir gerðar um tölur eða tíðni o.s.frv.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þegar við erum að leggja til breytingar viðlíka og þessa, sem kalla á mikil fjárútlát hins opinbera, verður að sjálfsögðu að fara í mjög góða greiningarvinnu á niðurstöðum þeirra aðgerða og útkomunni. Þess vegna held ég að þessi svokallaða samþætting áætlana, eins leiðinlega og það hljómar, verði í raun að vera leiðarljós okkar þegar eins viðamiklar áætlanir og samgönguáætlun eru lagðar fram. Samgönguáætlun snertir okkur öll, hún kveður á um gríðarlega fjármuni og hún á líka að gilda mörg ár fram í tímann.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hafa alla þessa greiningarvinnu tilbúna og eins líka þegar kemur að orkuskiptunum, að við séum tilbúin með alla þá undirbúningsvinnu sem við þurfum til að geta tekið ákvörðun. Í dag erum við til að mynda að horfa á það að rafbílar eru einungis 1% af bílaflota Íslendinga. Við erum kannski líka að átta okkur á því að þessi tekjumissir, sem okkur hefur orðið tíðrætt um þegar við erum að tala um veggjöldin, gerist í stærri tímaramma en margir hafa viljað halda fram. Því miður.