149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun. Auðvitað er mjög margt búið að koma fram og ég ætla að reyna eins og kostur er að endurtaka ekki í sífellu það sem sagt hefur verið hér en vekja athygli á þeim málum sem mér finnst hvað brýnust.

Markmið samgönguáætlunar á auðvitað að vera að samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar og umhverfislega sjálfbærar og sett séu markmið um skýra og jákvæða byggðaþróun. Þær hugmyndir sem hafa kannski fengið hvað mesta umræðu eru um gjaldtökuna, skiljanlega. Það er hægt að segja að þetta nefndarálit gangi að mörgu leyti út á það, breytta gjaldtöku og breytta sýn á það hvernig við sjáum fyrir okkur uppbyggingu samgöngumannvirkja. Ég tek heils hugar undir þessa hugmynd og er henni hliðholl. Ég bendi líka á það sem kemur fram í nefndarálitinu, að mikilvægt sé að flýta brýnustu samgöngubótum. Ég heyri ekki annað en að við hér í þingsal séum í öllu sammála um það.

Það er bent á að hagvaxtarspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að það dragi úr hagvexti og þess vegna ætti tíminn núna kannski að vera góður til að fara í slíkar framkvæmdir. Við vitum að á síðustu misserum hafa opinber útboð gjarnan farið fram úr kostnaðaráætlun en það lítur út fyrir að næstu misseri geti verið betur til þess fallin að fara í stórtækar framkvæmdir á samgöngumannvirkjum.

Þá langar mig að benda á það sem meiri hlutinn segir í nefndaráliti sínu, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðun almennu gjaldanna, þ.e. olíu- og bensíngjalds og bifreiðaskatts, þarf að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur, umfram ábata af greiðara og öruggara umferðarflæði og bættu umhverfi.“

Ég held að þetta sé svolítil lykilsetning í þessum efnum. Þrátt fyrir að fólk kunni að hafa mismunandi skoðanir á gjaldtökunni, hvort við séum búin að ræða hana nóg eða útfæra hana nægjanlega og allt það, held ég að flestir geti tekið undir að það sé mikilvægt að flýta þessum samgöngubótum. Það er til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Þetta eru samfélagslega mikilvæg verkefni, samgöngur eru einn af grunninnviðum hvers samfélags og skipta okkur öll gríðarlega miklu máli, hvort sem er út frá öryggissjónarmiðum og lýðheilsu, loftslagsmálum, efnahagsmálum eða félagsmálum. Þær koma inn á alla þessa þætti.

Mig langar líka að benda á að meiri hlutinn leggur áherslu á að gætt verði meðalhófs við ákvörðun fjárhæðar gjalds og þess gætt í hvívetna að fjárhæð veggjalds verði ekki hærri en svo að notanda verði tryggður ávinningur af nýrri framkvæmd þrátt fyrir veggjald. Þá verði litið til sjónarmiða um magnafslætti en einskiptisgjöldin verði hærri. Gjaldtaka skuli vera rafræn og án óþæginda eða tafa fyrir umferð og auðvitað þurfi að huga að persónuverndarsjónarmiðum í hvívetna. Þá nefnir meiri hlutinn það líka í nefndaráliti sínu að huga þurfi að því að gjaldtöku verði svo hætt þegar búið er að greiða upp framkvæmdina.

Ég stoppa aðeins við það og velti því fyrir mér hversu raunhæft það er. Við vitum að þótt gjaldtöku hafi til að mynda verið hætt í Hvalfjarðargöngum felst enn þá umtalsverður kostnaður í viðhaldi þeirra. Eitt er stofnframkvæmd vegna mikils umferðarmannvirkis en við vitum að viðhaldið er líka mikilvægur þáttur. Þess vegna held ég að það þurfi að velta því fyrir sér með hvaða hætti staðið verði að því.

Þá finnst mér líka ástæða til að draga fram þessa setningu, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að fjárframlög ríkissjóðs til samgönguframkvæmda lækki vegna gjaldtökunnar.“

Það held ég að sé lykilþáttur. Og einnig segir hér:

„Rétt er að taka fram að verði ríkiseignir seldar er mikilvægt að það svigrúm til samgöngubóta sem myndast nýtist einnig til uppbyggingar innviða, enda þörfin brýn.“

Ég held að við megum líka velta fyrir okkur hvort við ættum að umbreyta ákveðnum eignum ríkisins yfir í t.d. samgöngumannvirki.

Ég tek undir áherslurnar um að framkvæmdum við Arnarnesveg verði hraðað. Eins segir í nefndarálitinu er gert ráð fyrir að það sé mögulegt að framkvæmdir geti hafist um leið og skipulag og hönnun verði lokið og þá er nefnt næsta ár í þeim efnum.

Ég get ekki annað en staldrað sérstaklega við almenningssamgöngur. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hefur komið fram hér, við vitum öll að umferð á höfuðborgarsvæðinu mun aukast töluvert í ljósi þess að á næstu árum mun okkur fjölga. Það er meira að segja með breyttum ferðavenjum, umferðin eykst engu að síður. Við munum alltaf þurfa að huga að samgöngumannvirkjum okkar. En við erum bara algerlega úti á túni og út úr korti ef við förum ekki í eflingu almenningssamgangna. Þá verðum við bara í einhverri bílasultu eða -stöppu allan daginn með tilheyrandi mengun, tímaeyðslu og skertum lífsgæðum íbúa og þeirra sem fara um höfuðborgarsvæðið. Ég trúi því varla að nokkur mæli á móti mikilvægi þess að við förum í eflingu almenningssamgangna, enda eru öll borgarsamfélög sem við viljum bera okkur saman við á nákvæmlega þeirri vegferð.

Þá verð ég að minnast á að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa unnið gríðarlega mikla vinnu í þessum efnum. Þar hefur ríkt samstaða meðal sveitarstjórnarmanna í ólíkum flokkum um mikilvægi þessara framkvæmda. Fólk getur haft ýmsar skoðanir á orðinu borgarlína og nákvæmlega hvað það þýðir. En eftir ítarlega vinnu þá held ég að búið sé að skilgreina mjög vel hvað átt er við í dag þegar talað er um borgarlínuverkefnið. Það er átt við hágæða almenningssamgöngur eins og það hefur verið kallað, en það eru í rauninni bara sérakreinar fyrir strætisvagna sem geta verið af stærri gerðinni. Þeir geta keyrt beint upp að stoppistöðinni og þar af leiðandi þarf fólk ekki að stíga upp. Það gerir aðgengi auðveldara fyrir barnavagna, hjólastóla og fólk sem á erfitt með gang. Biðstöðvar eru einnig af veglegri gerðinni og hægt að gera ráð fyrir því að á biðstöð sjái maður hvenær næsti vagn kemur.

Með þessu, að vagninn keyri í sérrými, sparast umtalsverðir fjármunir. Mesti kostnaðurinn hjá Strætó bs. er mannskapurinn, eins og í flestum fyrirtækjum á Íslandi. Þegar við sjáum strætisvagn fastan í umferðartöf, ég tala nú ekki um þegar þeir koma nokkrir í röð, getum við mjög hæglega reiknað út hvað það kostar að hafa vagn fastan í umferðartöfum. Rekstrarkostnaðurinn verður þannig minni, þ.e. við getum veitt þessa þjónustu með hagkvæmari hætti þegar vagninn kemst í sérrými. Þá er frátalinn sá mikli kostur sem myndast auðvitað fyrir neyðarakstur á höfuðborgarsvæðinu og ég held að fólk sem er fast í umferðartöfum hljóti að sjá mikilvægi þess, með Landspítalann hér á vestasta odda höfuðborgarsvæðisins, að neyðarakstur komist greiðlega til og frá byggðum og að Landspítalanum. Það myndast að sjálfsögðu með því að vera með sérakreinar fyrir strætisvagna eða borgarlínu eins og það hefur verið kallað.

Þá vil ég fagna þeirri breytingartillögu frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar þar sem bætt er við lið, þ.e. að unnið verði að samningi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem lögð verði áhersla á nauðsynlegar úrbætur í núverandi almenningssamgöngum, uppbyggingu og rekstur hágæða almenningssamganga, úrbætur á stofnvegum og gerð hjóla- og göngustíga.

Mig langar líka að koma inn á það að í nefndarálitinu er farið mjög vel yfir þá skýrslu sem unnin hefur verið um borgarlínu og um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og unnin var af Vegagerðinni í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki betur séð en að meiri hlutinn taki undir niðurstöðuna í þeirri skýrslu. En þá kemur auðvitað að fjármögnuninni. Hvernig eigum við að fjármagna bæði innviðauppbyggingu svo og rekstur á borgarlínu? Ég hef sagt áður í ræðum að það er auðvitað samstarfsverkefni bæði ríkis og sveitarfélaga. Þannig er það alls staðar í kringum okkur, almenningssamgöngur eru ekki bara reknar af sveitarstjórnarstiginu heldur kemur ríkið yfirleitt líka að og/eða fylki þar sem um þrískiptingu stiganna er að ræða.

Það er eitt að tala um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en allt annað að tala um almenningssamgöngur á landsbyggðinni. Mér hefur stundum þótt skorta á umræðu um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu því að við verðum svo upptekin af því að þá þurfum við líka að ræða um almenningssamgöngur á landsbyggðinni. En þetta eru bara tvö mjög ólík verkefni. Þess vegna held ég að við eigum að nálgast þau þannig. Þau eru mjög ólík og eins mikilvæg og þau kunna að vera á báðum stöðum eru aðferðirnar sem þarf að beita til að ná árangri mjög ólíkar.

Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur nefnt hér strætósamgöngur við Akureyri eða Egilsstaði, hvað það taki langan tíma að komast á milli í strætó. Auðvitað geta flestir tekið undir að það er ekki boðleg þjónusta. Þá getum við velt fyrir okkur: Er fjármunum ríkisins vel varið í þessa vagna þegar ferðin tekur 7,5 tíma — var það ekki frá Akureyri? — og um 12 tíma frá Egilsstöðum, ég man nú ekki alveg tölurnar en þær voru á þessum nótum. Er þá ekki þeim fjármunum betur varið í að niðurgreiða til að mynda flug frá landsbyggðinni fyrir þá sem eru fjærst staddir? Ég er algerlega tilbúin að skoða þær hugmyndir og bendi á að við erum líka að tala um þetta sem loftslagsmál. Ef við erum að keyra tóma vagna út um landsbyggðina eða fljúga tómum flugvélum erum við alveg örugglega ekki að ná árangri í loftslagsmálum. Við hljótum að þurfa að samþætta þetta þannig að við náum árangri og opinberu fjármagni sé varið með skynsamlegum hætti.

Þá get ég ekki látið hjá líða að minna á að það eru í rauninni engin lög um almenningssamgöngur. Við höfum ekki falið sveitarfélögunum það verkefni að reka almenningssamgöngur. Ég tel ákveðna lagaumgjörð skorta í kringum þetta. Hér er einmitt minnst á þau vandræði sem hafa verið vegna samninga við landsbyggðina um almenningssamgöngur þar sem þeir samningar hafa ekki staðið undir sér, það hefur ekki verið um hallalausan rekstur að ræða. Það fjármagn sem kemur frá ríkinu í almenningssamgöngur til þessara landsvæða hefur ekki dugað fyrir rekstrinum. Ég er ekki að tala gegn því að við setjum opinbert fé í almenningssamgöngur á landsbyggðinni, ég vil alls ekki að orð mín séu túlkuð með þeim hætti, en mér finnst nauðsynlegt að horfa þá til samanburðar á það að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru kostaðar meira og minna af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu eða skattgreiðendum sem hér búa. Þannig eru tekjur Strætó bs. árið 2017 1,9 milljarðar í fargjöld, farþegarnir sjálfir, 3,2 milljarðar eigendurnir eða sveitarfélögin og 0,9 ríkið, sem sagt sirka 15% af þessum tekjuþáttum. Og ég tek ekki ferðaþjónustu fatlaðra inn í þetta sem myndi auðvitað lækka hlutfall ríkisins enn frekar.

Mér finnst nauðsynlegt að horfa á þetta í þessu ljósi. Þegar talað er um í nefndarálitinu að það þurfi að skoða samkomulagið sem gert var við sveitarfélögin um tilraunaverkefni um almenningssamgöngur, í ljósi þess að ákveðið hefur verið að ráðast í borgarlínu og að það eigi að fara í frekari uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu, er það allt í góðu lagi og full ástæða til að skoða þann samning og yfirfara. En mikilvægi þess að ríkið taki þátt í þeirri mikilvægu þjónustu sem almenningssamgöngur eru má ekki gleymast. Það hlýtur að eiga að vera ákveðin verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga. Hana þurfum við að skýra frekar. Þá held ég að besta leiðin sé að vinna þetta í sátt og samstarfi við sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu sem hafa um það ákveðna stefnu.

Ég verð líka aðeins að koma inn á hjólreiðar. Það má nefnilega ekki gleymast þegar við erum að ræða um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu að hjólreiðar skipta alltaf meira og meira máli. Þetta er ekki bara sport eða bara samgönguleið einhverra ótrúlegra furðufugla sem hjóla í hvernig veðri sem er — og lít ég þá á einn ákveðinn hv. þingmann. Nei, það er nefnilega ekki svo. Hjólreiðar hafa aukist mjög mikið hlutfallslega og alls staðar í kringum okkur er unnið með þetta í borgarsamfélögum, þ.e. virka samgöngumáta, að fólk geti gengið, hjólað eða nýtt sér almenningssamgöngur.

Ég fékk senda frá formanni Landssambands hjólreiðamanna ágæta grein um að Evrópusamtök hjólreiðamanna, sem í eru 54 lönd í Evrópu, eru komin með ákveðna stefnumörkun og áætlun um hvernig þau ætla sér að tvöfalda hlutfall þeirra sem nýta sér hjólreiðar. Ég tel fulla ástæðu til þess að við gerum sérstaka áætlun í kringum hjólreiðar og mikilvægi þeirra.

Það er rætt í nefndarálitinu og hefur verið stefna líka að því fjármagni sem hefur komið frá Vegagerðinni í hjólreiðastíga, þ.e. svokallaða stofnstíga, eigi líka að verja í stofnstíga á landsbyggðinni. Ég hef fullan skilning á því. Á mörgum stöðum er hreinlega hættulegt þegar hjólað er á vegunum, ef vegaxlirnar eru ekki nægjanlegar breiðar myndi maður svo sannarlega vilja frekar sérstaka hjólreiðastíga. En þá vil ég minna á að stór hluti af þessu er reksturinn. Hver ætlar að reka hjólreiðastíga sem ganga í gegnum mörg sveitarfélög? Hver ætlar að moka þá eða sjá til þess að þeir verði í lagi eftir nokkur ár þegar Vegagerðin er búin að kosta framkvæmdina? Það er mikilvægt að það gleymist ekki. Hér á höfuðborgarsvæðinu er sveitarfélögunum falið það og hér erum við þó með stærri og öflugri sveitarfélög en víðast hvar á landsbyggðinni. Það þarf að huga að þessum þætti.

Þetta er allt of lítill tími. En ég get ekki hjá líða að minnast líka á hina breytingartillögu meiri hlutans. Hún er reyndar skráð sem breytingartillaga frá Jóni Gunnarssyni en ég hygg að alla vega meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar, og ég vona reyndar öll umhverfis- og samgöngunefnd og þingið, geti sameinast um þessa breytingartillögu er lýtur að því að lagfæra það sem hafði verið gert ráð fyrir á Kjalarnesinu og á Vesturlandsvegi. Um þetta segir í greinargerðinni:

„Við breytingar á samgönguáætlun er það ekki ætlun meiri hlutans að seinka verklokum framkvæmda né að draga verulega úr framkvæmdahraða.

Því er hér lagt til að fallið verði frá því að lækka fjárframlög til vegarins Skarhólabraut–Hafravatnsvegur um 400 millj. kr. árið 2019 þannig að því verki geti lokið í ár.“

Þarna erum við að tala um stuttan kafla, sérstaklega kafla frá Skarhólabraut að Langatanga eða frá slökkvistöðinni í Mosfellsbæ að Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þar sem er 2+1-vegur og ekki aðgreindar akstursstefnur, liggur í miklum halla og öryggi er ekki ásættanlegt. Þess vegna er algjörlega nauðsynlegt að sú framkvæmd verði boðin út strax í vor og henni verði lokið á þessu ári. Vil ég þakka nefndinni fyrir að hafa brugðist hratt við því að þarna var augljóslega um einhver mistök að ræða, að það rataði ekki inn í nefndarálitið í upphafi að þessu skyldi breytt.

Þá ætla ég að nota síðustu mínúturnar í að nefna það sem kemur fram á bls. 17 í nefndarálitinu, um skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Ég hef orðað það svo að mér finnst lagaumgjörð okkar, hvort sem það er um mat á umhverfisáhrifum með skipulagslögunum okkar, ekki í nógu góðu horfi. Það er ekki hægt að brýnar og algerlega nauðsynlegar framkvæmdir fyrir samfélagið, hvort sem það eru línulagnir, vegir eða eitthvað annað, liggi undir því að hægt sé kæra þær á öllum stigum, umhverfismatið gildi stutt, hvert og eitt sveitarfélag þurfi að fara í gegnum aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagsbreytingu og svo erum við með svæðisskipulag þar ofan á. Ég hef velt því upp og ætla að gera það hér enn og aftur hvort ákveðnir þættir svona skipulagsmála sem teygja sig yfir mörg sveitarfélög eigi hreinlega heima í einhverju sem heitir landsskipulag. Ég velti því mjög fyrir mér hvort ferlið sé eðlilegt t.d. við færslu á einni rafmagnslínu einhvers staðar á Þingvallaheiði og inn í Hafnarfjörð sem fer í gegnum fjögur eða fimm sveitarfélög, er á svæðisskipulagi, er til umhverfismat yfir, er veitt framkvæmdaleyfi fyrir og það er hægt að kæra það hjá hverju einasta sveitarfélagi og þannig stoppa mjög mikilvæga framkvæmd. Þetta heldur t.d. Hafnarfirði í heljargreipum hvað varðar uppbyggingu á íbúðasvæðum þar. Við getum líka að sjálfsögðu tekið sem dæmi veginn um Teigsskóg.

Nú kem ég úr sveitarfélagageiranum, hef verið þar lengi, starfað að skipulagsmálum, var formaður skipulagsnefndar í Mosfellsbæ í 10 eða 12 ár og finnst sjálfstæði sveitarfélaganna mikilvægt og að skipulagsvaldið liggi þar. En þegar um svona stórar og mikilvægar framkvæmdir er að ræða held ég að við verðum að átta okkur á því að einhvers staðar eru mörk og í einhverjum tilfellum þarf að horfa í stærra og heildstæðri ljósi á svona framkvæmdir en hægt er að gera í einstaka sveitarfélagi fyrir sig.

Ég læt þetta verða lokaorðin, ég nýtti meira að segja ekki allan tímann en held að ég hafi komist yfir flest sem ég ætlaði að segja.