149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta með vandvirkni og að við skoðum hlutina gaumgæfilega. Auðvitað er staðreyndin varðandi hugleiðingar um veggjöld að tveir af þremur ríkisstjórnarflokkum lýstu hreinni andstöðu við veggjöld fyrir kosningar. Það er ekki orð um þau í stjórnarsáttmála og við höfum ekki rætt þau af neinni alvöru fyrr en þau dúkka upp í tengslum við umræðu um samgönguáætlun nú. Raunar er orðin hálfgerð kúvending á yfirstandandi þingvetri. Þess vegna veltir maður fyrir sér: Væri ekki skynsamlegt að gefa sér betri tíma?

Við erum öll sammála um þann brýna vanda sem er í samgöngukerfinu okkar og mikilvægi þess að lyfta grettistaki, sérstaklega hér í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem umferðin hefur þyngst mjög mikið, slysatíðni er há og mjög brýnt að ráðast í nauðsynlegar úrbætur. Miðað við þær fjárhæðir sem um er að ræða, og hér er talað um 50–60 milljarða í brýn verkefni á næstu árum, veltir maður því fyrir sér hvort ekki væri miklu skynsamlegra að losa um ríkiseignir eins og í bönkunum og nota þær til að fjármagna þessar framkvæmdir.