149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:07]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann kom í byrjun inn á svæðisskipulagið. Í raun er ekki hægt að skipuleggja byggð öðruvísi en að gera ráð fyrir umferð. Það er einmitt þess vegna sem hugmyndin að borgarlínu er sprottin úr svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Það gengur auðvitað ekki að hvert og eitt sveitarfélag geri ráð fyrir því að byggja fyrir 1.000 manns hér eða 400 manns þar eða eitthvað og svo er enginn að spá í hvernig fólk eigi að komast á milli. Þetta verður að vinna saman. Þess vegna er borgarlína bara grunnhugmynd í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

Þá er líka ágætt að nefna að höfuðborgarsvæðið er eina svæðið sem lögum samkvæmt þarf að vera með svæðisskipulag. Á öðrum svæðum eins og á Reykjanesi og víðar er það valfrjálst. Það er ekki bundið í lög að þess þurfi. Þá kemur hv. þingmaður inn á það sem hefur oft valdið vandræðum þegar sveitarfélögin horfa bara á sín mörk og göngustígarnir ganga ekki á milli eða vegir, hjólreiðastígar. Ég hygg af reynslu minni af því að vinna innan svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins að ötullega sé verið að vinna að því að breyta því. En allir þurfa að vera með opin augun fyrir því að samgöngur ganga auðvitað þvert á sveitarfélög.

Þá verð ég líka að fá að minnast á það sem ég náði ekki að nefna hér áðan: Borgarlínan snýst ekki bara um almenningssamgöngur og bætt lífsgæði þeirra sem eru til að mynda að fara frá Mosfellsbæ og Kópavogi niður í bæ. Þær eru líka, held ég, eina raunhæfa leiðin til þess að við byggjum upp atvinnusvæði á höfuðborgarsvæðinu öllu. Sveitarfélögin í kringum Reykjavík hafa verið að berjast fyrir því í tugi ára að fá til sín stofnanir og fá til sín fyrirtæki. Það hefur gengið mjög misjafnlega vel. Með þessu erum við að tryggja að þeir sem byggja upp í tengslum við borgarlínu, hvort sem það er atvinnuhúsnæði eða íbúðarhúsnæði, séu staðsettir þar sem umferðarflæðið er gott. Þetta eykur möguleikana á því að við nýtum innviðina í báðar áttir þannig að atvinnusvæði dreifist betur yfir höfuðborgarsvæðið og við hættum algerlega þessari svefnbæjarhugsun, (Forseti hringir.) að fólki þurfi að fara langar leiðir í vinnu. Við verðum auðvitað að sjá betri dreifingu í þessu.