149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, margt áhugavert sem þar kom fram. Ég er þeirrar skoðunar og trúi því og held að það sé rétt hjá mér, að hv. þingmaður er með reynslumeiri fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum hér á svæðinu. Mig langar því að beina alla vega fyrra andsvari mínu að borgarlínunni og velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti verið mér sammála í því að taka undir þær óskir sem hafa komið fram frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að samhliða þessum hugleiðingum um veggjöldin liggi fyrir skýrt og fjármagnað samkomulag um borgarlínuna. Að ákveðnu leyti eru sveitarfélögin — nú er ég að reyna að hugsa ekki hugtakið á ensku heldur á íslensku — að treysta þessum fyrirætlunum án þess að hafa nokkuð fyrir sér beinlínis í því, það eru viljayfirlýsingar um þetta samkomulag. Ég er að tala um að pakkinn, borgarlínan sé fjármögnuð með skýru og bindandi samkomulagi. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti ekki skilið þá ósk að þetta þurfi að fara saman, vegna þess að það er eiginlega ekki hægt að skilja þetta í sundur. Sú tilhugsun að farið sé í þessa vegferð með veggjöldin og núverandi módeli eins og við þekkjum sé hleypt upp og síðan ýtist borgarlínan aftar — hún er einfaldlega óhugsandi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Samhliða því þá velti ég fyrir mér hvort það sé ekki líka eðlilegt að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi einhverja aðkomu að útfærslunni á veggjöldunum og hafi eitthvað um það að segja, m.a. í samhengi við eigin stefnu um umferðaröryggi, um (Forseti hringir.) grænar áherslur, stýringu umferðar o.s.frv.