149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna, enda var mjög skýrt og skilmerkilega farið yfir mjög fjölbreytt svið sem bjó til tengingu hjá mér sem ég hafði ekki áttað mig á áður.

Fjallað hefur verið um að þetta séu brýnustu samgöngumannvirkin öryggislega séð, umferðarþungalega séð o.s.frv. Það eru allir sammála um að fara verður í þær samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu, það er enginn ágreiningur þar um og ekki að ástæðulausu.

Það hefur fleira verið sagt í umræðunni, og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson mætti hlusta núna, en eins og hv. þingmaður hefur talað er forsendan fyrir því að veggjöldin verði sett á að það verði einhver ávinningur fyrir þann sem borgar veggjöldin, þ.e. að kostnaðurinn sem hann sparar í rauninni komi að einhverju leyti til baka í veggjöldunum en það sé samt heildarsparnaður við að borga veggjöld inni í því. — En hérna var tengingin sem ég gerði við ræðu hv. þingmanns: Í yfirferð okkar yfir borgarlínumálin er sú sviðsmynd sett upp að umferðaraukning með eða án borgarlínu sé alltaf í plús, þ.e. það er alltaf meiri umferðarþungi, hvort sem við förum í borgarlínu eða ekki. Samkvæmt VSÓ-ráðgjöf og greiningu verður 25% aukning á heildarferðatíma þótt farið verði í 100 milljarða framkvæmdir, sem þýðir að fólk sparar hvorki í ferðatíma, eldsneytiskostnaði né öðru. Fólk sparar ekki neitt við að borga veggjöld.