149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru allir sammála um að fara þurfi í framkvæmdirnar fyrr en ella, einmitt út af þeim ástæðum sem voru raktar. Staðreyndin er hins vegar sú fyrir þá sem eru í umferðinni að heildarumferðartíminn kemur til með að aukast. Kostnaður þeirra við að vera í umferðinni kemur því til með að aukast, bæði af því að umferð verður meiri og út af veggjöldum. Þeir sem eru í umferðinni munu ekki spara neinn tíma með vegaframkvæmdunum, þær bara verða að gerast. Það er ekki um annað að ræða. En þrátt fyrir samgöngubætur mun umferðartíminn lengjast og þar af leiðandi mun enginn spara tíma eða eldsneyti á því að ferðast um hin nýju umferðarmannvirki, það mun frekar kosta þá meira, meiri tíma, meira eldsneyti eða meira rafmagn, og fólk borgar líka vegtolla. Það er því enginn sparnaður, eins og t.d. kom fram í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar, að þarna yrði sparnaður í tíma og eldsneyti (Forseti hringir.) sem kæmi í mínus á móti veggjöldunum og þýddi nettósparnað fyrir þann sem keyrði.