149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun, tvær samgönguáætlanir samtals til ársins 2033. Ég vil í upphafi umræðunnar þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í þetta, bæði meiri og minni hlutanum og báðum þeim hópum fyrir nefndarálit sín. Eins og glöggt hefur komið fram í umræðunni eru þau skoðanaskipti sem við eigum hér í dag gríðarlega mikilvægur undirbúningur fyrir áframhald umræðunnar og til að hnýta þá enda sem þó eru ekki hnýttir í þessari áætlun, til að mynda nákvæmlega hvernig við ætlum að fara að því að fjármagna samgöngukerfið, hvernig við ætlum að hugsa þetta kerfi okkar til frambúðar og hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem við sem samfélag höfum skuldbundið okkur til að ná í loftslagsmálum og skuldbindingum okkar almennt gagnvart umheiminum.

Mikið af umræðunni í dag og raunar undanfarna daga, og mér finnst einhvern veginn undanfarnar vikur og mánuði, hefur farið í veggjöld, bæði veggjöld í þeim skilningi að við þurfum að finna kerfi sem geti fjármagnað samgöngukerfið til langrar framtíðar, þegar við förum út úr kolefniskerfinu sem við erum í núna, og einnig veggjöld til að flýta framkvæmdum — þetta eru í raun tvær mismunandi leiðir. Mér finnst kannski fulllítið hafa verið talað um þessa grundvallarhugsun.

Við höfum haft umtalsverðar tekjur undanfarin ár og áratugi af olíu- og bensíngjöldum. Við sem samfélag, eða a.m.k. við sem stjórnmálahreyfing, þ.e. Vinstri græn, höfum lýst því yfir að við viljum ekki þessi gjöld. Við viljum ekki að peningar streymi í ríkissjóð af þessum gjöldum. Við viljum sem sagt komast út úr kolefniskerfinu. Þá skuldum við okkur sjálfum að taka þá umræðu. Og hvað þá? Ætlum við þá að neita okkur um þennan tekjustofn alfarið, þ.e. tekjustofn af umferð, og fjármagna samgöngur algerlega með almennu skattfé? Eða ætlum við í raun að halda okkur við sama módelið og við höfum haldið okkur við undanfarin ár, þ.e. að þeir sem kaupa bensín og olíu á bílana sína borgi veggjöld? Það er þannig í dag. Út úr þessu kerfi viljum við komast en við viljum líka fá inn peninga til að fjármagna kerfið. Þetta er ákveðið, hvað á maður að segja, tvist í þessari umræðu. Hvernig getum við látið þetta tvennt ganga upp?

Það er augljóst að sumar framkvæmdir munu aldrei „standa undir sér“, og við þurfum líka að ræða það, með vegatollum, veggjöldum eða hvað við köllum það, hvort sem það eru flýtiframkvæmdir eða einhver gjöld til langs tíma. Þær framkvæmdir eru engu að síður afar mikilvægar. Vegna þess að við trúum því í alvöru að það þurfi að vera hægt að búa alls staðar í landinu, það þurfi að vera hægt að komast alls staðar um og að við sem þjóð getum komist þangað sem við viljum með tiltölulega skynsamlegum hætti. Fjölmargir þingmenn hafa komið inn á þetta í dag. Í því sambandi er mikilvægt að taka fram að það er nákvæmlega jafn mikilvægt fyrir höfuðborgarbúa að komast út á land eða ferðamenn að komast um landið og það er fyrir fólk í dreifbýli að komast til borgarinnar eða á milli staða í dreifbýli. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra.

Ég vil geta komist til Akureyrar með tiltölulega öruggum hætti og á skikkanlegum tíma, alveg eins og íbúinn á Akureyri gæti viljað koma til Reykjavíkur — eða Kópavogs, svo að maður tali nú ekki um það. Nokkurt púður hefur farið í að ræða um það hverjir borga og að veggjöld séu ósanngjörn skattlagning eða ósanngjarnari skattlagning en einhver önnur, eða álagning á fólk. Það er í raun nákvæmlega sama fyrirbærið í mínum huga og á við þá sem kaupa olíu eða bensín á bílana sína — þeir borga sem nota, þetta er nákvæmlega sama konseptið. Ég er alveg til í að taka þá umræðu með einhverjum þingmönnum hvort við eigum að komast algerlega út úr því módeli en þá ætlast ég til að þeir sömu þingmenn séu tilbúnir með tillögur um almennar skattahækkanir sem ég er til í að ræða af fullri hreinskilni. Ég er ekki viss um að almennur hljómgrunnur sé fyrir því hér í þessum sal að fara í almennar skattahækkanir til að ná inn fjármagni til að fjármagna vegakerfið.

Við skulum átta okkur á því að tekjurnar sem ríkið hefur af eldsneytissölu eru ekki bara bensín- og olíugjöld heldur líka virðisaukaskattur. Hann myndi væntanlega líka detta út. Við erum því að tala um mjög mikla peninga.

Í umhverfislegu tilliti er mjög mikilvægt að muna að við höfum gengist undir tilteknar skuldbindingar, við ætlum að gera Ísland kolefnishlutlaust árið 2040. Þá þurfa allir að taka saman höndum og þá þurfum við að horfa til þess að umferðin, þar sem hún er mest, þar sem flestir keyra, verði umhverfisvænni en hún er í dag. Þá er ég fyrst og fremst að tala um höfuðborgarsvæðið. Hér eru flestir bílarnir, hér er mest keyrt og við þurfum að finna leið til þess að breyta því. Borgarlínan er í mínum huga augljós kostur eða stórkostleg efling almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það er gleðilegt sem nú er lagt upp með, að þetta verði samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga. Eins og kemur fram í nefndaráliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar — ég man náttúrlega ekkert á hvaða blaðsíðu — er í grundvallaratriðum gert ráð fyrir að þetta sé samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga og fjármagnað til helminga af báðum. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt.

Aðeins hefur verið minnst á flug í samhengi við almenningssamgöngur. Þá komum við aftur að því hve það er mikilvægt að byggð sé alls staðar í landinu, a.m.k. að mínu viti. Við vitum að það er engin sanngirni í því að ef við ætlum að vera hér með samfélag þar sem allir eiga að geta notað þjónustu, þar sem allir eiga að geta leitað þjónustu, til að mynda hingað á höfuðborgarsvæðið sem er kannski, alla vega í sumum tilfellum, eini staðurinn þar sem tiltekin þjónusta er í boði, þá verðum við að tryggja að íbúar landsins alls staðar að geti komist á skikkanlegum tíma til höfuðborgarinnar. Það verður aldrei akandi frá ystu annesjum eða með almenningssamgöngum, eða í strætó frá Langanesi. Það verður því miður ekki, eða úr Árneshreppi.

Þá verðum við með einhverju móti að hugsa til þess hvort við getum fundið einhverja leið til að niðurgreiða aðrar samgöngur eins og til að mynda flug. Ég held að sú hugmynd sem menn hafa verið að ræða hér í dag, og hefur verið velt upp í þessari samgönguáætlun, sé ágæt og það eigi að reyna að útfæra hana betur — hún hefur verið kölluð skoska leiðin, eitthvað þess háttar. Það hefur líka verið rætt um öryggismál í þessu sambandi. Það er ekki hægt að ýkja það hversu mikilvæg þau eru í samgöngumálum. Það eru því miður hundruð Íslendinga sem lenda í alvarlegum slysum á hverju einasta ári á þjóðvegunum og við vitum að hluti þeirra og jafnvel stór hluti þeirra slysa sem verða stafa af því að vegakerfið okkar er ekki nægilega undir það búið að taka við þeirri umferð sem við ætlumst til.

Við ætlum að vera ferðamannaland og við ætlum að halda áfram að hafa tekjur af ferðaþjónustu. Þá verðum við að geta boðið upp á kosti fyrir þessa sömu ferðamenn sem eru öruggir og tryggir og það verður ekki gert með öðru en því að fólk komist um landið með skikkanlegum hætti. Í því sambandi langar mig líka að nefna ferðamáta sem örfáir þingmenn hafa tæpt á í dag, ekki nógu margir, en það eru hjólreiðar. Það er gríðarlegur vöxtur í hjólreiðatúrisma í heiminum, líka á Íslandi. Það skelfilega á Íslandi er að hjólreiðamenn er í auknum mæli að reyna að feta sig eftir þjóðvegi eitt í stórhættulegum aðstæðum fyrir reiðhjól, fyrir hjólandi vegfarendur,

Hér á höfuðborgarsvæðinu finnum við það að þar sem stofnstígar hafa verið gerðir þar eru hjólreiðar liðugar. Það sýnir sig að með því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert stórátak í að búa til hjólreiðastíga, gera hjólreiðar greiðari og auðveldari samgöngukost, hafa hjólreiðar aukist. Ég held a.m.k. ekki að hjólreiðar hafi aukist eitthvað sérstaklega vegna þess að veðrið hafi skánað svo mikið eða vegna þess að minna rok sé á höfuðborgarsvæðinu en áður var. Veðrið er nákvæmlega eins og það var en hjólreiðar hafa aukist verulega. Ef eitthvað er að marka mælingar þá fara álíka margir eða heldur fleiri ferða sinna nú á reiðhjóli en með almenningssamgöngum. Það er umhugsunarvert. Það er raunverulegur fjöldi eins og einhver kom inn á, það eru ekki bara einhverjir kverúlantar sem hjóla, það er alls konar fólk.

Mig langar aðeins að ræða um kjördæmið mitt, kjördæmið sem ég er þingmaður fyrir, Suðvesturkjördæmi. Við erum náttúrlega hluti af höfuðborgarsvæðinu og við erum, eins og kom fram í andsvörum við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hér áðan, hluti af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, öll þessi sveitarfélög. Þess vegna skipta allar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu íbúa kjördæmisins mjög miklu máli. Arnarnesvegur er, eins og einhverjir þingmenn hafa komið inn á, eitt af slysunum í gömlum samgönguáætlunum, þ.e. hann var felldur út. Ég held að ég muni það rétt að það var einhvern tímann á tímabilinu 2013–2016 sem síðasti búturinn af Arnarnesvegi datt einhverra hluta vegna út af samgönguáætlun og það var mikið slys.

Nú er hv. umhverfis- og samgöngunefnd hálfgert að leggja til að framkvæmdum við Arnarnesveg verði hraðað. Ég tel það afar mikilvægt. Ég held að það sé grundvallaratriði, ekki bara til að bæta umferðarflæði heldur er það líka stórkostlegt öryggismál, fyrir efri byggðir Kópavogs til að mynda, að þessi vegstubbur, sem ég vil kalla, sem er alls ekki löng leið, verði kláraður. Þá vil ég taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um vegstúfinn milli Skarhólabrautar og Langatanga í Mosfellsbæ sem er hluti af þjóðvegi eitt, þann bút þarf náttúrlega að klára.

Mig langar í lok ræðunnar að koma aðeins inn á með hvaða hætti við eigum að nota flýti-/tafasvæðisgjöld til þess að stuðla að bættri umferðarmenningu eða annarri umferðarmenningu á höfuðborgarsvæðinu sem ég tel afar mikilvægt. Nokkrir hv. þingmenn hafa nefnt Ósló sem ákveðna fyrirmynd í því. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að líta þangað, nota þau tafa- eða svæðisgjöld sem eru rukkuð til að bæta almenningssamgöngur, nota fjármagnið til þess, og tryggja þannig að með því að rukka „óþarfa umferð“ inn í borgina, sem gæti farið eftir öðrum leiðum, aukum við líkur á að þeir sem raunverulega þurfa að komast með bifreiðum um svæðið geti gert það á tiltölulega greiðan hátt. Ég nefni þar til að mynda neyðarbíla og þess háttar.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði um borgarlínuna með tilliti til neyðaraksturs. Það er einmitt mjög mikilvægt öryggisatriði á höfuðborgarsvæðinu af því að við höfum öll einhvern tíma séð neyðarbíla nánast fasta í umferð á forgangsljósum og lítið eða ekkert gerist.

Herra forseti. Ég held að ég hafi klárað þá punkta sem mig langaði að ræða sérstaklega. Ég hlakka mjög til áframhaldsins á þessari umræðu og ég lít svo á að það sé annars vegar í framlögðu frumvarpi sem væntanlega kemur frá hæstv. samgönguráðherra í mars eða apríl um fjármögnun samgöngukerfisins og síðan umræðu um samgönguáætlun sem væntanlega, eins og boðað er, verður aftur á haustmánuðum.