149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt í lokin hérna. Ef átt er við ferðamenn eru þeir tvímælalaust að borga sinn skerf eins og er, því að þeir borga eldsneytisgjöldin eins og allir aðrir við pumpuna, borga þar veggjöldin.

En aðeins að bankaskattinum og veiðigjöldunum og tillögum minni hlutans hvað það varðar. Þá erum við í því ástandi núna eftir hrun að ríkið tók á sig fall bankanna og ýmislegt svoleiðis og líka í rauninni mjög mikinn niðurskurð sem leiddi af sér þessa innviðaskuld sem við búum við núna, þetta niðurdrabbaða vegakerfi. Við erum búin að borga niður þau lán sem við fórum í vegna yfirtöku þrotabús bankanna o.s.frv., með bankaskattinum og að loka þrotabúunum, en við erum ekki búin að klára innviðaskuldina. Af hverju ættum við að hætta við bankaskattinn áður en við erum búin að klára innviðaskuldina?

Það sama með veiðigjöldin. Þar eru þungaflutningarnir mjög mikill hluti af því hversu mikill peningur fer í viðhald á samgöngukerfinu, þannig að það er mjög eðlilegt að það sé jafnvel (Forseti hringir.) greitt í gegnum veiðigjöldin.