149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð. Rétt er að taka fram í upphafi í umræðu um veggjöld að sjálfur er ég ekki mótfallin veggjöldum en tel hins vegar mjög mikilvægt að þau séu skynsamlega og rétt útfærð. Ég hef ákveðnar efasemdir um að búið sé að ígrunda þau mál nægilega vel. Það kemur mér líka á óvart hversu hratt Vinstri græn hafa hlaupið frá mjög skýrum kosningaloforðum sínum um að þetta kæmi alls ekki til greina. Ég ætla svo sem ekkert að kvarta yfir því frekar en þeirri yfirlýsingu hv. þingmanns rétt áðan að hann væri dálítið hrifinn af lækkun bankaskatts, sem ég styð eindregið.

En það er eitt sem ég velti fyrir mér og langar að spyrja hv. þingmann um í fyrra andsvari: Hvernig leggst veggjald sem þetta á einstaklinga og þá mögulega með mismunandi hætti? Þegar við fjármögnum vegakerfið okkar í dag með eldsneytisgjöldum borga eyðslufrekustu, stærstu bílarnir hlutfallslega eða krónulega séð mest á ekinn kílómetra meðan eyðslugrennri, ódýrari bílar borga minna. Þetta er líka spurning um vegalengdir. Við höfum rætt aðeins fólk sem hefur leitað sér að hagstæðara, ódýrara húsnæði, t.d. flust af höfuðborgarsvæðinu austur á Selfoss en sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið daglega. Mér sýnist að ef einstaklingur ætti t.d. lítinn bíl sem eyðir fimm til sex lítrum á hundraðið og eigandinn þyrfti að borga veggjald, sem ég hef heyrt nefnt að verði um 300 kr. hvora leið, yrði það 50% hækkun á ferðinni fram og til baka fyrir viðkomandi. Það er vissulega mjög íþyngjandi fyrir einstakling sem er að reyna að bæta lífskjör sín og lækka framfærslukostnað sinn með því að flytja austur og sækja áfram vinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Þess vegna velti ég fyrir mér með flokk eins og Vinstri græn: Hafið þið skoðað vandlega hvernig veggjöld af því tagi leggjast sérstaklega á tekjulægri hópa sem hafa um langan veg að fara til að sækja vinnu?