149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[23:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert óeðlilegt að þeir borgi mest sem aka mest. Þó verður að hafa í huga, sérstaklega þegar verið er að tala um stofnæðar til og frá höfuðborgarsvæðinu, að íbúum jaðarbyggða höfuðborgarsvæðisins, þ.e. á Reykjanesi, Akranesi, í Borgarnesi og á Árborgarsvæðinu, hefur fjölgað um þúsundir á undanförnum árum. Fólk er gjarnan að leita sér að hagstæðara húsnæði og lækkar þannig framfærslukostnað. Þetta mun hafa veruleg áhrif á fólk sem sækir daglega vinnu á höfuðborgarsvæðið.

Ég fagna hugmyndum hv. þingmanns um að mögulega ættu umhverfisvænni bílar að greiða minni veggjöld en það leiðir hugann aftur að spurningunni hvort ekki hefði allt eins mátt ná sama markmiði um aukið fjármagn í vegakerfið með kolefnissköttum og ýta enn frekar undir markmið okkar í loftslagsmálum og orkuskiptum.

Maður hefur áhyggjur af því í því samhengi að hér sé beinlínis verið að draga úr biti kolefnisgjaldsins í hlutfalli (Forseti hringir.) af heildarkostnaði við akstur og í raun vinna gegn markmiðum okkar í orkuskiptum og loftslagsmálum. (Forseti hringir.) Það er einmitt svo mikilvægt þegar við ræðum hugmyndir eins og veggjöld að eitthvert samræmi sé við stefnu okkar í öðrum málum, til að mynda í orkuskiptum og loftslagsmálum, (Forseti hringir.) að þetta vinni með okkur en sé ekki hlutlaust eða vinni jafnvel gegn okkur.