149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[23:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér í andsvörum í kvöld ákveðnum sinnaskiptum hjá bæði Vinstri grænum og Framsóknarflokki þegar kemur að veggjöldum. Ég hef tekið það skýrt fram sjálfur að persónulega er ég ekki andvígur veggjöldum en tel þó mjög mikilvægt að það sé vandlega skoðað hvernig þeim er beitt og hvar þau eru viðeigandi. Flest erum við sennilega sammála um að Hvalfjarðargöng séu dæmi um vel heppnaða einkaframkvæmd sem fjármögnuð var með veggjöldum. Hér erum við að tala um hugmyndir um að fjármagna opinberar framkvæmdir með veggjöldum á núverandi stofnæðum til og frá höfuðborgarsvæðinu og ég held að við þurfum að skoða vandlega hver áhrifin af því eru.

Mig langar í fyrra andsvari aðeins að velta því fyrir mér að flokkur hv. þingmanns var mjög andvígur á sínum tíma hugmyndum um hækkun á kolefnisgjaldi sem settar voru fram af hálfu fyrri ríkisstjórnar. Þá var talað um að hér væri um landsbyggðarskatt að ræða. Það er auðvitað mjög misjafnt hversu mikið einstaklingar aka en bent hefur verið á að að meðaltali er ekki sjáanlegur munur á heildarakstri landsbyggðar á móti höfuðborgarsvæðisins. Hér væri töluvert mikill akstur dagsdaglega meðan vissulega væru eknar lengri vegalengdir inn á milli á landsbyggðinni en þær eru styttri í daglegum akstri til og frá vinnu.

Þar sem virðist þó óhjákvæmilegt í þessu samhengi er að horfa sérstaklega til þess hóps sem sækir hingað vinnu frá nágrannabyggðarlögum um þessa sömu stofnæðar til höfuðborgarsvæðisins. Það er hópur sem keyrir mjög mikið. Við sjáum það bara í hópi þingmanna, þetta er kannski sá hópur þingmanna sem ekur hvað mest yfir árið, mikil tíðni á löngum leiðum. Ég velti fyrir mér helstu (Forseti hringir.) röksemdafærslum Framsóknarmanna fyrir því af hverju þeim hugnist þessi gjaldtaka betur, sem virðist lenda með (Forseti hringir.) talsverðum þunga á talsvert þrengri hópi, en hækkun kolefnisgjaldsins eins og hún var rædd í upphafi.