149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[23:37]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni þetta andsvar. Eins og ég kom inn á áðan þá eru breyttir tímar og við þurfum að mæta breyttum áskorunum. Það er allt á fljúgandi ferð hjá okkur. Það sem ég held að við þurfum að vera virkilega opin fyrir er hvernig við getum fjármagnað þetta kerfi okkar. Við stöndum bara frammi fyrir því. Við þurfum að finna leiðir til framtíðarfjármögnunar en það þarf að gæta jafnræðis við greiðslu gjaldanna. Markmiðið þarf að vera að sem flestir taki þátt og gjaldið deilist á okkur sem jafnast og á sem flesta. Þá erum við líka að tala um að ferðamennirnir greiði. Þeir auka álagið á vegakerfið hjá okkur.

Ég treysti því að við finnum réttláta leið, þetta komi ekki óréttlátt niður á okkur. Það er vissulega áskorun sem við stöndum frammi fyrir en það er ekkert annað í boði en að mæta þessu og leysa það. Markmiðið með þessum flýtiframkvæmdum er líka að auka umferðaröryggi og skilvirkni í umferðinni og fækka slysum. Það er mesti ábatinn af þessu öllu saman, það er að fækka slysum og minnka kostnað, bæði í mannskaða, mannslífum og kostnaðinn hvað það varðar hjá einstaklingunum og samfélaginu. Við erum bara opin fyrir því að skoða það allt saman.