149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[23:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt og tek undir orð hv. þingmanns. Ég fagna þessari umræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við vöndum okkur mjög vel við þessar breytingar á gjaldtöku. Ég held við eigum að vera heiðarleg og tala um þetta eins og þetta er. Þetta er auðvitað aukin gjaldheimta á umferð, það telst skattahækkun, sama hvaða nafni við kjósum að nefna það. Við eigum að bera hana saman við aðra mögulega gjaldheimtu og núverandi gjaldheimtu af umferðinni eins og eldsneytisgjöld og kolefnisgjöld. Þau eru að mörgu leyti fallandi gjaldstofn samhliða áherslum okkar í orkuskiptum en ekki síður hefur hluti af árangrinum við að draga úr losun frá bifreiðum verið sá að þær eru orðnar sparneytnari. Um leið má auðvitað færa rök fyrir því að eftir því sem eyðsla bifreiða minnkar, meðaleyðsla flotans minnkar, þá dregur úr þessu biti sem eldsneytisgjöldin og kolefnisgjöldin hafa, sem hvati þannig að fólk skipti yfir í algerlega jarðefnaeldsneytislausar samgöngur eins og rafmagnsbifreiðar eða vetni ef það verður raunin síðar meir. Hver veit.

Það er alveg rétt og við erum öll sammála um að þessi verkefni verða ekki fjármögnuð án einhverra aðgerða. Það er nauðsynlegt að ráðast í átak í uppbyggingu vega. Á sama tíma og við gefum okkur tíma í að skoða framtíðarfjármögnunarkerfi á umferð og hröpum ekki að neinum niðurstöðum þar, væri ekki skynsamlegt og mætir það einhverri andstöðu t.d. af hálfu Framsóknarmanna að nýta eignasölu ríkissjóðs, t.d. að selja hluta af bönkunum, til þess að fjármagna þá 50, 60 milljarða sem hér er verið að tala um í sérstök átaksverkefni á næstu árum?