149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

lengd þingfundar.

[15:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við óskum eftir atkvæðagreiðslu um það hvort þingfundur skuli lengdur. Á fundi forseta var tæpt á því að mögulega yrði beðið um lengri þingfund í dag. Því var ekki fylgt eftir. Við höfum ekki fengið upplýsingar um hversu lengi standi til að halda þennan þingfund fyrr en nú. Okkur finnst eðlilegt að borin sé upp sú spurning á einhverjum tímapunkti.

Hvað samkomulagið varðar sem hæstv. forseti talar um þá töldum við að við myndum hafa viku í þinginu til að ræða þetta mál. Okkur finnst það eðlilegur tími til að ræða málið, þannig var lagt upp með það og við höfum engan áhuga á að svíkja það samkomulag frekar en önnur.