149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Í dag fagnar Vinstrihreyfingin – grænt framboð 20 ára afmæli sínu og ég vil nýta tækifærið til að tala um eina af grunnstoðum hreyfingarinnar, sem er kvenfrelsi. Það hefur kannski ekki farið fram hjá neinum manni að síðustu misseri hafa þolendur hvers kyns kynferðislegrar áreitni og ofbeldis loks fengið að láta rödd sína heyrast undir formerkjum #metoo. Ungar athafnakonur vöktu sömuleiðis nýlega athygli á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum undir myllumerkinu vinnufriður. Þar komu fram enn fleiri sögur af þeirri áreitni sem hefur í áraraðir verið talin sjálfsagður hluti af vinnudegi fólks og þá sérstaklega ungra kvenna í þjónustustörfum. Sjálf þekki ég vel þær fjandsamlegu aðstæður sem þar er lýst.

Virðulegur forseti. Það er engin ein rétt leið til að bregðast við áreitni eða ofbeldi. Við bregðumst öll við á ólíkan hátt, hvort sem við erum þolendur, gerendur, atvinnurekendur eða aðstandendur. Við verðum því að læra hvert af öðru, hlusta á þolendur og tryggja öruggt umhverfi þar sem þolendur geta stigið fram og skilað skömminni. Við lifum á tímum þar sem viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér og þá er sérstaklega erfitt fyrir ungar konur í karllægum stéttum að kvarta undan slíkri hegðun. Þá er allt ósagt um stöðu hinna ýmsu minnihlutahópa við sömu aðstæður. Mikilvægt er að stjórnvöld taki þátt í að skýra betur hverjar afleiðingarnar verða af áreitni á vinnustað og vinni náið með verkalýðsfélögunum og Samtökum atvinnulífsins við að útrýma kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.

Virðulegur forseti. Undirliggjandi í öllum sögum sem hafa komið fram síðustu ár undir formerkjum #metoo og #vinnufriður er ein skýr krafa, krafan um að fá að sinna starfi sínu í friði án þess að þurfa að verða fyrir áreitni, fordómum eða ofbeldi, hvort sem það er í orði eða á borði, sama hvort um sé að ræða starfsfólk í fiskvinnslu eða í æðstu stofnunum landsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)