149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að við ætlum að eyða deginum og líklega inn í nóttina í að ræða áfram um samgönguáætlun til næstu fimm ára. Mig langar að vísa hérna í pínulítinn greinarstúf sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Yfirskriftin á greininni er: Skattar og aftur skattar. Það breytir engu hvað það er kallað, veggjöld, vegtollar. Staðreyndin er sú að það er endalaust leitað logandi ljósi til að auka álögur á almenning sem í rauninni er skattlagður í sárri fátækt. Fólkið okkar sem er að greiða skatta sem er með tekjur langt undir 300 þús. kr. útborgaðar á mánuði.

Á árinu 2019 verður ríkissjóður af 7 milljörðum kr. vegna 63% lækkunar á hinum svokallaða bankaskatti. Hér er ég að tala um forgangsröðun fjármuna, virðulegi forseti. Á árinu 2019 mun lækkun veiðigjalda rýra tekjur ríkissjóðs um 4,3 milljarða kr., lækkun sem sérstaklega mun nýtast stórútgerðinni. Bara þetta tvennt skerðir tekjur ríkissjóðs um 11,3 milljarða á árinu. Þetta fé mátti nota í þágu allra landsmanna, til uppbyggingar á hinu niðurnídda samgöngukerfi, í stað þess að taka erlent lán og senda síðan reikninginn á almenning. Flokkur fólksins segir nei við vegsköttum. Hættið að kúga þá sem eiga ekkert, sækið fjármagnið þangað sem er að finna. Það er hin eina rétta forgangsröðun.

Flokkur fólksins mótmælir harðlega þeirri grímulausu hagsmunagæslu sem ríkisstjórnin rekur til verndar þeim sem allt eiga á kostnað þeirra sem eiga ekkert. Bankarnir hafa efni á að greiða bankaskattinn. Stórútgerðin hefur efni á að borga fullt verð fyrir aðgang að auðlindinni okkar. Fátækt fólk hefur ekki efni á að borga vegskatta, tolla eða fleiri gjöld eða nokkuð annað sem eykur greiðslubyrði þeirra sem er þeim óyfirstíganleg nú þegar.