149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í 5. gr. siðareglna Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar:

d. leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.“

Kynbundið ofbeldi kemur fram með ýmsum hætti. Hatursorðræðu er ekki hægt að smætta niður í slæma hegðun vegna þess að þá tökum við ábyrgðina og afleiðingarnar af gerendunum. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi má flokka í nokkur stig. Fyrsta stigið felst í afmennskun kvenna með kynferðislegu tali þar sem þær eru oftast smættaðar niður í annað tveggja; konur sem hægt er að sofa hjá eða konur sem er ekki hægt að sofa hjá. Þannig eru mennskan og aðrir andlegir eiginleikar rifnir af konum. Þær eru bara líkamar.

Hatursorðræða normalíserar ofbeldi gegn minnihlutahópum. Það gerir næsta stig ofbeldisins, líkamlegt ofbeldi, mögulegt. Þögnin er besti vinur ofbeldismannsins.

Þögnin hefur verið rofin. Hvort sem um er að ræða Alþingi eða aðra vinnustaði þurfum við öll að taka ábyrgð á orðum okkar og gjörðum. Hreyfingin, með leyfi forseta, „Time is up“ — Tíminn er útrunninn — sýndi okkur það svo um munaði.

Hættum að sópa kynbundnu ofbeldi undir teppið. Ef við gerum það ekki eru orð okkar um mikilvægi jafnréttisbaráttunnar marklaus.

Virðulegi forseti. Þögnin hefur verið rofin. Tími ofbeldismanna er útrunninn.