149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið hér til að fagna ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að styðja tímabundið Guaidó, sem er lýðræðislega réttkjörinn forseti valdalauss þjóðþings Venesúela. Staðan í landinu hefur verið slæm í langan tíma, svo vægt sé til orða tekið, og við sjáum í enn eitt skiptið skipbrot sósíalismans í verki. Sósíalisminn hefur alltaf og mun alltaf koma niður á almenningi. Venesúela er engin undantekning. Um þrjár milljónir manna hafa flúið land. Lyf og matvæli fást ekki nema fyrir útvalda vini stjórnvalda. Skólar og heilsugæslur geta ekki starfað. Pólitískir andstæðingar stjórnvalda eru fangelsaðir og pyndaðir og þeir sem hafa það gott eru vinir og ættingjar þeirra sem fara með völdin.

Í landinu ríkir alger upplausn. Og til að bæta gráu ofan á svart hafa stjórnvöld hunsað réttmætar kröfur almennings um lýðræðislegar kosningar og núverandi forseti hagar sér eins og einræðisherra, líkt og hann hefur gert á undanförnum árum. Þessi þróun á sér langan aðdraganda og þrátt fyrir miklar náttúruauðlindir, eins og olíu og frjósamt land fyrir matvælaframleiðslu, ríkir hungursneyð í landinu, hungur í boði hugmyndafræði sem hefur alltaf haft slæmar afleiðingar fyrir almenning.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að íslensk stjórnvöld hafi skipað sér í raðir vestrænna ríkja og lýst yfir stuðningi við sitjandi forseta þingsins sem forseta til bráðabirgða. Í framhaldinu er síðan rétt að fram fari kosningar í landinu. Það er okkar von að þær kosningar fari fram með eðlilegum hætti og endurspegli loksins vilja fólksins í landinu.