149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í gær fór fram umræða um samgönguáætlun, stærsta mál umhverfis- og samgöngunefndar þessa kjörtímabils. Tillaga um grundvallarbreytingar er lögð fram í áliti meiri hlutans. Það er ánægjulegt að sjá að jafn stórt mál og þetta hefur verið, undir stjórn Miðflokksins, leitt út úr þeim ógöngum sem það var í. Þegar ég tala um þær ógöngur sem málið, þ.e. samgönguáætlun, var í er ég auðvitað að tala um þá sýn sem birtist í framlagðri fjársveltri áætlun samgönguráðherra sem lögð var fram í haust, áætlun sem gerði ráð fyrir að lífsnauðsynleg verkefni eins og Reykjanesbrautin, Suðurlandsvegurinn að Selfossi og Vesturlandsvegur upp í Borgarnes hefðu ekki verið kláruð fyrr en eftir 15–20 ár. Framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu hefðu orðið sáralitlar á næstu 15 árum. Hluti grunnvegakerfis á Vestfjörðum hefði verið á malar- og moldarvegum næstu 20 árin. Norðaustursvæðið hefði síðan legið svo til alveg óbætt hjá garði.

Það sem ég vil segja hér sérstaklega er að það er mikilvægt að halda því til haga að núna er ekki verið að útfæra veggjöldin. Það er vinna sem mun eiga sér stað í vor og mögulega haust. Þá þarf að leggja sérstaklega áherslu á að við endurskoðun almennu gjaldanna, þ.e. olíu-, bensín- og bifreiðaskatts, þarf að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur. Krafan er lækkun almennra aksturstengdra gjalda. Einnig er mikilvægt að nefna er að fara þarf í heildarendurskoðun á almennum gjöldum sem núna falla á bifreiðaeigendur.