149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:42]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Frá þeim sem vilja koma í veg fyrir það með öllum ráðum að niðurstaða fáist í aðildarviðræður Íslendinga við Evrópusambandið og þjóðin verði þar með upplýst um það hvað fylgi hugsanlegri aðild heyrist gjarnan að Brexit-klúður Breta sýni að ekki sé hægt að ganga úr sambandinu hafi maður á annað borð stigið þar inn. Á þessu þrástagast menn, til að mynda hæstv. utanríkisráðherra landsins í þessum ræðustól. Á þá lærdómurinn af öllu saman að vera sá að aldrei megi ljá máls á fullri aðild.

Skilnaður er alltaf erfiður en þar með er ekki sagt að við leggjumst gegn hjónaböndum. Það er erfitt að segja sig úr félögum en þar með er ekki sagt að aldrei megi ganga í neitt félag. Englendingar virðast ætlast til þess að þeir geti sagt sig úr ESB, haldið eftir þeim réttindum sem slík aðild veitir en losnað við skyldurnar sem því eru samfara. Það er með öðrum orðum ekkert mál að ganga úr Evrópusambandinu en þá verður maður líka að ganga úr því. Það táknar að maður stendur utan við það. Við þetta bætast svo sérstakir erfiðleikar Englendinga vegna nágranna sinna í Skotlandi og Írlandi sem sjá enga ástæðu til að ganga úr sambandinu og Evrópusambandið hefur gætt hagsmuna Íra gagnvart Englendingum sem hinum gömlu heimsvaldasinnum finnst náttúrlega alveg fráleitt.

Lærdómurinn sem lítil þjóð á að draga af þessu öllu saman er sá að þótt Evrópusambandið sé svo sannarlega ekki paradís þar sem allar óskir rætast og smjör drýpur af hverju strái er það samráðs- og samvinnuvettvangur þeirra þjóða sem þar eru en ekki hinna sem þar eru ekki og þar með góður staður fyrir berskjaldaðar smáþjóðir gagnvart ofríki stærri þjóða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)