149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt, og um það er ekki deilt hér, að þetta eru bráðnauðsynlegar framkvæmdir og vegabætur sem við þurfum að ráðast í. Fyrst og síðast út frá öryggismálum eins og rætt hefur verið um með Reykjanesbrautina og Suðurlandsveginn, mikilvægi þess að aðgreina akstursstefnur, ljúka gerð mislægra gatnamóta á lykilgatnamótum á þeirri leið o.s.frv. Þetta eru dýrar framkvæmdir en þær eru algerlega bráðnauðsynlegar. En þær stytta ekkert verulega ferðatíma okkar. Þær stytta ekki leið. Þetta er sama leiðin sem ekin er þannig að það dregur ekkert verulega úr eldsneytisnotkun, verður ekkert sá sparnaður fyrir íbúa þessara svæða sem t.d. íbúar á Akranesi og í Borgarnesi upplifðu við það að fá Hvalfjarðargöngin, að þurfa ekki að keyra fyrir Hvalfjörð. Það gefur alveg augaleið. Beinn fjárhagslegur ávinningur er ekkert í líkingu við það sem þar var. En auðvitað er framkvæmdin engu að síður algerlega lífsnauðsynleg, enda stórkostlegt öryggismál.

Varðandi vangaveltur hv. þingmanns um kostnaðinn: Þetta veltur auðvitað á heildarkostnaði. Ég sló á það út frá þeim reikniforsendum sem ég hef fengið uppgefnar að veggjald á Suðurlandsvegi, til að borga þá leiðina milli Hveragerðis og Selfoss og ljúka við nýja Ölfusárbrú, 16 milljarða framkvæmd eða þar um bil, með rekstrarkostnaði veggjaldakerfis, myndi sennilega liggja nærri 500–600 kr. á ferð, fremur en 200–400 kr. Þetta eru auðvitað meðalútgjöld á umferð í heild og veltur á umferðarþunga. Hann er langmestur á Reykjanesbrautinni en þar væri auðveldast að kljúfa viðamiklar framkvæmdir út frá gjaldinu á þeirri braut einni og sér. En þetta eru enn þá mjög lítt mótaðar hugmyndir af hálfu meiri hlutans. Þess vegna tel ég brýnt að þetta sé rætt til enda (Forseti hringir.) og íbúum á þessu svæði sé það ljóst, áður en þingið ákveður að ráðast í aðgerðir með þessum hætti, hvað þetta muni kosta og hverjir muni borga.