149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þingmanni. Það er auðvitað svo að stjórnmálamenn eru snillingar í að láta slæma hluti hljóma vel. Hér er talað um þetta plagg sem eitthvert stórkostlegt tímamótaplagg, hér sé í fyrsta skipti komið fram með fullfjármagnaða og forgangsraðaða samgönguáætlun. Við slepptum bara öllum dýru framkvæmdunum, en við tölum ekki um það. En það hjálpar til við forgangsröðun og fjármögnun að sleppa bara öllu sem kostar mest og segja: Við ætlum bara að skoða þetta seinna.

Það er auðvitað það sem er verið að gera í þessu. Allar stærstu, dýrustu framkvæmdirnar sem nauðsynlegast er að ráðast í, út frá þessari sömu forgangsröðun, ef við byggjum á öryggi, umferðarþunga, ferðatíma o.s.frv., eru skildar eftir. Það er sagt: Kíkjum á þetta við tækifæri þegar við erum búin að finna út úr því hvar við ætlum að fá meiri pening. Ég held að það sé augljóst í þessu að samgönguráðherra ætti (Forseti hringir.) náttúrlega að taka þetta mál til sín aftur og klára það.