149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:20]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni ræðuna um samgönguáætlun. Mér fannst hann leggja talsvert á sig til þess að virðast ósammála veggjöldum. En hér erum við að ræða nefndarálit þar sem meginniðurstaðan er sú að gestir sem komu fyrir nefndina voru sammála þeim markmiðum sem sett eru um forgangsröðun en hins vegar var skýr krafa úr öllum landshlutum um allar tegundir vega að fara þyrfti í meiri framkvæmdir. Því er töluverðu púðri, getum við sagt, eytt í nefndarálitinu í nýjar leiðir við fjármögnun og stærstum hlutanum er varið í að fjalla um veggjöld, einmitt til þess að hvetja til umræðu þar um.

Í breytingartillögu við samgönguáætlun stendur svo, með leyfi forseta:

„Unnið verði að útfærslu nýrra fjármögnunarleiða og nauðsynlegri frumvarpsgerð með það að markmiði að flýta framkvæmdum á áætluninni og skapa fjárhagslegt rými fyrir nýjar framkvæmdir.“

Er hv. þingmaður ósammála þessu markmiði?

Mig langar líka að spyrja: Hversu langan tíma þarf til umræðu um veggjöld í samfélaginu? Nú hefur umræðan staðið í töluverðan tíma. Við getum rakið hugmyndir nokkuð langt aftur ef út í það er farið, allt að áratug, en kannski hefur hún verið vaxandi síðustu tvö árin. Hversu langan tíma þarf síðan í að undirbúa útfærsluna? Og að lokum: Lagði þingmaðurinn fram tillögur um aukin útgjöld til samgöngumála í umræðu um fjármálaáætlun?