149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvarið. Já, ég tel það ekki nokkrum vafa undirorpið. Einstaklingur sem fær útborgað 218.000 kr., t.d. öryrki sem er að leigja eða að reyna að borga af einhverju sem á að heita þak yfir höfuðið, á ekki einu sinni mat á diskinn allan mánuðinn. Hver einasta aukakróna sem á hann leggst er einni krónu of mikið. Það sem þessi ríkisstjórn ætti að vera að gera er að koma í veg fyrir að fátækt fólk sé skattlagt, fólk sem er með minna en 300.000 kr. í framfærslu. Hver einasta króna er þungur baggi á þennan þjóðfélagshóp, sem er ótrúlega stór, en ríkisstjórnin lokar augunum fyrir því. Hv. þingmaður nefnir líka meðalverð í gegnum göngin. Meðalverð í gegnum Vaðlaheiðargöngin er um 700 kr. ef keyptar eru 70 ferðir, annars þarf að borga ansi mikið meira.

Þessi sami einstaklingur sem býr við hvað bágustu kjörin þarf að snara fram 70.000 kr. á einu bretti til að geta keypt sér þessar 100 ferðir í gegnum göngin og greiða fyrir það 700 kr. Það er í raun alveg sama hvernig á það er litið. Sá einstaklingur sem nær ekki endum saman og er að berjast fyrir því að lifa út mánuðinn, helminginn af honum á núðlum og hinn helminginn á hafragraut, getur ekki bætt á sig einni einustu krónu, virðulegi forseti, í vegaskatta.