149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ef við lítum yfir hið pólitíska svið þegar kemur að samgöngumálum er þess skemmst að minnast að í aðdraganda alþingiskosninganna í október 2017 bar samgöngumál mjög hátt. Lykilhugtakið eða a.m.k. eitt af lykilhugtökum í samræðum frambjóðenda og annarra í aðdraganda þessara kosninga var innviðir og stóð upp úr öllum nauðsyn þess að efla þyrfti innviði landsins. Orðið innviðir er eins konar dulmál og merkir vegir, hafnir og flugvellir í flestum tilfellum, kannski ljósleiðarar, en þegar kemur til stykkisins reynist átak ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum í framkvæmd vera 5,5 milljarðar aukalega í samgöngumál á ári í þrjú ár. Síst skal gert lítið úr því á nokkurn hátt en allir sjá hve skammt þessi fjárhæð hrekkur. Í hinu gagnmerka áliti meiri hluta samgöngunefndar er rakið að gestir voru einróma í þeirri afstöðu að gera þyrfti átak í vegaframkvæmdum um allt land, viðhaldi og nýframkvæmdum. Þar er rakið að fjárfestingarþörfin í heild liggi á milli 350 og 400 milljarða kr. Menn geta þá borið þessar fjárhæðir saman, innviðaátak ríkisstjórnarinnar sem aftur skal ekki gert lítið úr á nokkurn hátt og þær fjárhæðir sem þarna eru tilgreindar af hálfu meiri hluta í samgöngunefnd.

Öllum er ljóst að fjöldi ferðamanna sem fer um landið hefur margfaldast síðustu árin og sömuleiðis hefur þróun atvinnulífs í landinu stóraukið þungaflutninga um vegi landsins með auknu álagi og sliti á vegum. Kem ég að því síðar. Fjöldi ferðamanna árið 2017 var rúmar 2,2 milljónir og þeim fjölgaði nokkuð á síðasta ári, 2018. Vitaskuld hefur allur þessi mikli fjöldi gríðarleg áhrif á samgöngukerfið, eykur álagið á það, og er ekki skrýtið til þess að hugsa þegar rúmar 2,5 milljónir manna fara um vegi landsins á ári hverju. Atvinnusvæði hafa stækkað í landinu og ákveðnir þjóðfélagshættir taka breytingum, fólki sem býr í dreifbýli og vinnur í þéttbýli fer fjölgandi.

Ég tek undir með meiri hlutanum í áliti hans að brýnt er að brugðist verði hratt við þeim vanda sem safnast hefur upp síðustu ár. Ég hef leyft mér að geta þess áður að þessi vandi er að sumu leyti eitthvað sem kalla mætti vanrækslusyndir en er að sumu leyti eðlilegur eða á sér eðlilegar skýringar vegna þess efnahagsáfalls sem þjóðin varð fyrir fyrir um áratug. Það þarf þess vegna að vinna markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur almennt eins hratt og kostur er og þar ber að leggja til grundvallar hagkvæmni, markmið í loftslagsmálum, sem er orðið viðurkennt og viðtekið sjónarmið, jafnræði íbúa landsins og síðast en ekki síst öryggissjónarmið. Það er auðvitað mikilvægt að leita leiða til að flýta brýnustu samgöngubótum sem allra mest. Eins og háttar nú til í íslenskum þjóðarbúskap má gera ráð fyrir að nokkuð hægist um hjá aðilum sem koma að verklegum framkvæmdum, til að mynda eins og verkfræðistofum og verktökum, og þess vegna má líta þannig á að heppilegar aðstæður séu í landinu til þess að ráðast í uppbyggingu innviðanna.

Eins og menn þekkja eru bættar samgöngur vel fallnar til þess að stuðla að framförum í íslensku samfélagi og íslensku atvinnulífi og þar með efnahagsmálunum í heild sinni. Ég vil leyfa mér að taka undir með meiri hlutanum sem leggur sérstaka áherslu á að leita með raunsæjum hætti eftir nýjum fjármögnunarleiðum til að greiða fyrir samgöngubótum, bæta öryggi og flýta fyrir orkuskiptum. Við endurskoðun hinna almennu gjalda sem falla á umferðina, þ.e. olíu- og bensíngjalds og svo bifreiðaskatts — þar undir eru náttúrlega fleiri undirskattar, þetta er mikill frumskógur eins og menn þekkja — þarf að tryggja að sértæk gjaldtaka eins og veggjöld auki ekki álögur á bifreiðaeigendur umfram þann ábata sem fæst af greiðara og öruggara flæði umferðarinnar og bættu umhverfi. Þannig er ýtt undir orkuskipti í bráð og lengd. Meiri hlutinn minnir einnig á að fyrirkomulag almennra gjalda af umferð þarfnast heildarendurskoðunar þegar fram í sækir og orkuskiptum hefur fleygt fram. Í náinni framtíð þarf að takast á við þetta verkefni.

Herra forseti. Ég vek athygli á fyrirvara félaga míns utan flokka sem höfum með okkur samstarf, hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, þar sem hann segir að grípa verði til raunhæfra aðgerða til að flýta brýnum úrbótum í samgöngumálum. Hann segir í fyrirvara sínum sem er hluti af áliti meiri hlutans að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um fjárhæð veggjalda og útfærslu afsláttarkjara og að leggja þurfi sérstaka áherslu á lækkun gjalda á bifreiðaeigendur samhliða upptöku veggjalda. Þá eigi að nota fjármagn sem fyrirhugað er að renni í væntanlegan þjóðarsjóð, a.m.k. að hluta til, til að kosta framkvæmdir í samgönguáætlun, m.a. nefnir hann Sundabraut. Loks segir hann: „Forðast beri margfeldisinnheimtu veggjalda af þeim sem þurfa að fara um mörg veggjaldahlið til að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar.“

Herra forseti. Mig langar til að staldra aðeins við og nefna örlítið nánar tvö atriði sem þarna er getið um. Í fyrsta lagi víkur hv. þingmaður í sínum fyrirvara að þjóðarsjóði. Ég geri mér fulla grein fyrir því að maður er að hætta sér út á svolítið hættulega braut þegar maður talar um hann vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur útskýrt að hugmyndin um þjóðarsjóð styðjist við ákveðna hugmyndafræði. Við sem viljum kannski frekar ræða málin á praktískum grundvelli, um framkvæmdir og samgöngubætur og aukið umferðaröryggi, viljum samt sem áður leggja það fram, a.m.k. ég hér, að að svo miklu leyti sem þessi hugmynd um þjóðarsjóð á hugmyndafræðilegum grundvelli eftir því sem sagt er hefur gildi þá kann að vera að gildi hennar myndi ef til vill aukast þegar fram líða stundir, í ljósi þess að við búum núna við vanfjármagnað samgöngukerfi sem er að sumu leyti að hruni komið, ef má orða það þannig. Þá er ég ekki síst að vísa til ástands vega víða um land sem hafa þurft að bera margfalda umferð miðað við það sem áður gerðist. Þess vegna er full ástæða til að ræða um tímasetninguna á þjóðarsjóði. Það liggur fyrir að á komandi árum munu falla til miklar arðgreiðslur vegna þess hluta orkumálanna sem snýr að vinnslu raforku. Það hefur komið fram að Landsvirkjun telur sig geta greitt mjög svo aukinn arð af starfsemi sinni. Þessar auknu tekjur eiga að verða uppistaðan í hinum væntanlega þjóðarsjóði. Þá liggur kannski beinast við að þessar tekjur fari til þess að byggja upp innviðina í landinu, vegina, hafnirnar, flugvellina, frekar en að safna þessu fé í einhvern sjóð, sem er reyndar erfitt að sjá í frumvarpinu við hvaða skilyrði yfir höfuð yrði nýttur. Ég tek af þessum ástæðum og fleiri undir með hv. þingmanni þegar hann nefnir sérstaklega í fyrirvara sínum þjóðarsjóð í tengslum við fjármögnun þessara framkvæmda sem rætt er um í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar og í áliti meiri hlutans.

Í annan stað vil ég staldra aðeins við og segja það að hvað sem segja má um veggjöld er það auðvitað staðreynd að Hvalfjarðargöngin, sú mikla samgöngubót, hefðu aldrei orðið til nema fyrir það að þá var leitað eftir nýmælum í fjármögnun framkvæmda og göngin eru náttúrlega studd veggjöldum. Skemmst er frá því að segja að bandarískur lífeyrissjóður, lífeyrissjóður kennara í Bandaríkjunum, fjármagnaði þessi göng með skuldabréfi sem ég hygg að hafi verið gefið út til 23 ára. Reynslan varð sú, eins og oft gerist, að umferðin um göngin varð meiri en ráð hafði verið fyrir gert. Þau skiluðu þess vegna auknum tekjum og lánið var greitt upp áður en komið var að lokum lánstímans. Starfa minna vegna hafði ég tækifæri og tilefni til að fara oft um þessi göng og ég get borið um það eins og svo margir aðrir að það var auðvelt val, þegar maður stóð frammi fyrir því að í áskrift kostaði hver ferð um göngin kannski um eða innan við 300 kr. og bar það saman við kostnaðinn og tímann sem fer í það að fara fyrir Hvalfjörð.

Herra forseti. Mikilvægi þess að unnið verði að umferðaröryggismálum verður aldrei nógsamlega undirstrikað. Huga þarf að umferðaröryggi ungmenna, sér í lagi á hættulegum vegum, fólksins sem er að taka sín fyrstu skref í umferðinni og þarf í mörgum tilfellum að aka um hættulega vegi til að sækja nám. Þá tel ég nauðsynlegt að taka undir að brýnt er að auka fræðslu til erlendra ferðamanna sem eru óvanir akstri við íslenskar aðstæður og jafnvel óvanir akstri yfir höfuð að tala. Sjálfsagt mál er að gerðar verði lágmarkskröfur til erlendra ferðamanna varðandi aksturskunnáttu þegar þeir taka hér bílaleigubíla. Almennt vil ég taka undir áherslur sem lagðar eru fram í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar um umferðaröryggi og að forgangsröðun verkefna taki mið af öryggissjónarmiðum.

Herra forseti. Bregðast þarf við áhyggjum sem flugrekendur og aðrir hagsmunaaðilar hafa lýst af flugöryggi í millilandaflugi í ljósi ört vaxandi flugumferðar og stöðu millilandaflugvalla landsins. Síðastliðinn áratug hefur umferð um Keflavíkurflugvöll aukist mikið og farþegaflugvélum í millilandaflota Íslendinga fjölgað hratt á undanförnum árum. Flugstarfsemin hefur margfaldast á tiltölulega fáum árum og skipar þýðingarmikinn sess í íslenskum þjóðarbúskap eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson þreytist ekki á að minna okkur samþingsmenn sína á.

Ástæða er til að lýsa áhyggjum yfir að á sama tíma og umferð farþegavéla um Keflavíkurflugvöll hefur margfaldast hafa innviðir varaflugvallanna á Akureyri og á Egilsstöðum ekki verið byggðir upp. Því hafa aðrir millilandaflugvellir ekki þróast í takt við aukna flugumferð til og frá landinu. Lokist Keflavíkurflugvöllur á annatíma eru aðrir millilandaflugvelli vanbúnir til að takast á við aðstæður sem geta komið upp þegar margar flugvélar þurfa á varaflugvelli að halda á sama tíma. Rakið er í áliti meiri hluta samgöngunefndar að við núverandi aðstæður verða flugstjórar því að tilkynna varaflugvöll í Evrópu til að uppfylla kröfur um flugöryggi á álagstíma Keflavíkurflugvallar. Því þurfa flugvélar á leið til landsins að bera mun meira eldsneyti en ella. Þetta leiðir til aukins kostnaðar fyrir flugrekendur, takmarkar burðargetu vélanna auk þess sem það leiðir til aukinna neikvæðra umhverfisáhrifa.

Í umsögnum kemur fram að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum séu mikið notaðir sem varavellir í daglegu áætlunarflugi til og frá landinu og kallað er eftir verulegum úrbótum á aðstöðu í átt að bættu öryggi. Í nýlegri heimsókn hv. atvinnuveganefndar til hinnar glæsilegu stöðvar Icelandair í Hafnarfirði, þar sem rekin er þjálfun flugliða í flughermum og umfangsmikil vinna af hálfu verkfræðinga fyrirtækisins, kom skýrt fram nauðsyn þess að búa þannig að flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum að þeir njóti viðurkenningar sem fullgildir varaflugvellir fyrir millilandaflugið.

Ég tek undir með meiri hlutanum þegar hann beinir því til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja við endurskoðun samgönguáætlunar að nýtt fyrirkomulag rekstrar Reykjavíkurflugvallar, Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar leiði til þess að þeir fjármunir sem ætlaðir voru til viðhalds og endurnýjunar á þeim á árunum 2020–2023 færist til eflingar á innanlandsflugvallakerfinu og annarra flugvalla í grunnneti þar sem viðhald og endurnýjun er orðið aðkallandi, m.a. með hliðsjón af öryggissjónarmiðum.

Ef við lítum okkur nær vil ég sérstaklega geta um tvær samgönguframkvæmdir í Reykjavík og næsta nágrenni borgarinnar. Í fyrsta lagi er það vegurinn um Kjalarnes sem er stórhættulegur, mjór, einbreiður og óupplýstur og verður að telja hann afar viðsjárverðan, sérstaklega vegna djúpra hjólfara sem hafa mælst langt yfir útgefnum öryggismörkum. Slys og óhöpp eru því miður allt of algeng á Kjalarnesi. Þessi vegur er þriðji fjölfarnasti vegur landsins en samt eina stofnæðin út frá Reykjavík sem ekki hefur verið breikkuð. Hann hefur setið eftir svo áratugum skiptir hvað varðar eðlilegt viðhald og nauðsynlega endurnýjun í ljósi stóraukinnar umferðar. Ekki þarf að nefna veðrið sem er ákaflega vindasamt á Kjalarnesinu og þess vegna liggur fyrir, herra forseti, að framkvæmdir á Kjalarnesi þola enga bið.

Í öðru lagi er það Sundabraut, en svo virðist sem hún hafi ekki fengið þá athygli sem hún þyrfti af hálfu yfirvalda í borginni og er það afar miður. Ýmsar aðgerðir af hennar hálfu, m.a. sala á lóðum og lendum í Vogahverfinu, sýnast geta valdið alvarlegum truflunum varðandi þetta verkefni og auknum kostnaði. Þess vegna er nauðsynlegt að unnið verði kappsamlega að því á vegum yfirvalda samgöngumála að finna leiðir til að ýta á eftir þessu mikilvæga verkefni sem hefur mikla þýðingu fyrir samgöngur og öryggismál á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Þegar við tölum um samgöngumál og ræðum þau í samhengi við mjög háar fjárhæðir verður mér hugsað til ábendingar sem kom fram á fundi sem ég sat í hv. fjárlaganefnd þar sem mættir voru fulltrúar Vegagerðarinnar og fjölluðu um þann mikla kostnað og slit sem verður á þjóðvegum landsins vegna þungra flutningabifreiða. Á fundinum kynntu þessir ágætu fulltrúar Vegagerðarinnar hugmyndir sem ég tel allrar athygli verðar og væru fallnar til þess að minnka slit á vegum vegna þessarar umferðar og koma fram umtalsverðum sparnaði þannig að það fé sem fer til þess að endurnýja vegi vegna þessa slits getur þá nýst í annað. Hér ræðir um öxulþunga flutningabifreiða, dekkjabreidd og loftþrýsting í hjólbörðum. Þessar ábendingar eru studdar verkfræðilegri reglu sem kennd er við fjórða veldið þegar kemur að öxulþunganum. Það má áætla fyrir fram að aðgerðir í þessa veru gætu leitt af sér svo umtalsverðan sparnað að það væri tilefni til að setja upp sérstaka hvata til þess að fá þá aðila sem standa að þungaflutningum til að gæta að þeim sjónarmiðum sem þarna eru.

Ég vil leyfa mér að ljúka máli mínu með því að varpa því til hæstv. ráðherra og annarra sem að málinu koma að gaumur verði gefinn að þessum möguleika til að spara fé til vegamála og skilja þannig eftir fé sem getur þá nýst í hinar brýnu framkvæmdir sem bíða.