149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðuna. Í henni var margt fróðlegt og áhugavert og tek ég sérstaklega undir það með honum sem hann nefndi um slit á þjóðvegum landsins og aðgerðir til að draga úr því. Þetta skiptir verulegu máli vegna þess að viðhaldsþörf í samgöngukerfinu og vegakerfi landsins er ærin.

Mig langar að fá hugmyndir frá hv. þingmanni varðandi fjármögnun í því mikla verkefni sem fram undan er við að byggja upp samgöngukerfið, vegakerfi landsins. Ég veit að hann hefur afar góða þekkingu á ákveðnu sviði, en hann er doktor í hagfræði. Hér hefur verið rætt um veggjöld og sitt sýnist hverjum um þá hugmynd og aðferðafræði og langar mig að fá álit hv. þingmanns á því hvernig hann sér það fyrir sér.

Nú hefur komið fram að í ríkisbönkunum tveimur, Íslandsbanka og Landsbanka, liggi mikið eigið fé. Ég held að það séu um 180 milljarðar í Íslandsbanka og hátt í 220 milljarðar í Landsbankanum, sem gera tæplega 400 milljarðar kr. Það má orða þannig að þetta fé sé í raun og veru engum til gagns. Skynsamlegra væri að nýta það í innviðauppbyggingu með einhverjum hætti þegar kemur að sölu bankanna.

Telur hv. þingmaður jafnvel skynsamlegra að fara þá leið að nota þetta fé til að fara í slíka uppbyggingu og falla þá frá áformum ríkisstjórnarinnar um gjaldtöku? Það væri ágætt að fá hugmyndir þingmannsins hvað það varðar.