149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Ég vil leyfa mér að lýsa þeirri skoðun hér að við fjármögnun þeirra framkvæmda sem standa fyrir dyrum og eru óumflýjanlegar og verður að ráðast í hið snarasta, a.m.k. svo fljótt sem auðið verður, þarf að hugsa dálítið vítt og svolítið stórt varðandi fjármögnun og hugsanlega í því tilliti að blanda saman ólíkum kostum. Ég gat um það í ræðu að forsendan fyrir Hvalfjarðargöngunum hefði verið innheimta veggjalda um þau. Ég gat sömuleiðis um að þau voru fjármögnuð með láni frá einum bandarískum aðila, sem var náttúrlega ákveðið nýmæli á sínum tíma. Reynslan sýnir okkur að þetta var afar vel heppnuð framkvæmd, algjör lyftistöng fyrir Vesturland og hefur nokkra þýðingu langt út fyrir það. Ég leyfi mér að segja það að hér eru ágætis fulltrúar landsbyggðarinnar í salnum og þetta hefur líka þýðingu fyrir Akureyri og þess vegna Austfirðina, ef menn fara þá leiðina.

Auðvitað er það kostur í stöðunni, eins og hv. þingmaður bendir á, að eitthvað af því fé sem er bundið í umfangsmikilli bankastarfsemi sem ríkið hefur með höndum geti nýst í því skyni, en þá erum við líka komin að mjög flóknu og vandasömu verkefni sem er að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum. Það eru ekki nema tíu ár frá hruni. Þjóðin er að vísu að rétta úr kútnum að mjög mörgu leyti en tjónið sem varð vegna falls bankanna er meira (Forseti hringir.) heldur en í tölum hafi verið talið. Þess vegna þarf að vanda (Forseti hringir.) mjög til alls undirbúnings. Ég á bágt með að sjá fyrir mér að það verði á allra næstu árum hægt að ráðast í þetta verkefni.