149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það gefur mér tilefni til að víkja að tveimur þáttum sem hann gat um. Annar þátturinn er jafnræði. Þegar menn huga að og ræða um veggjöld hljóta þeir að hafa í huga jafnræðissjónarmið í þeim efnum. Það getur ekki komið til að veggjöld verði reist á því að þau eigi að leggjast sérstaklega sem viðbótarskattur ofan á íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Það hafa átt sér stað mjög vel heppnaðar framkvæmdir úti á landi, jarðgangaframkvæmdir, svo ég nefni dæmi, sem eru lofsverðar og bera fagurt vitni verkkunnáttu þeirra manna sem þau hafa hannað og gert af mikilli sérþekkingu. Ég ætla að leyfa mér að segja að almennt talað er ég fylgjandi öllum framkvæmdum af því tagi, vegna þess að þau skila árangri langt út fyrir það sem excel-skjölin mæla í tengingu byggða, auknum tækifærum til atvinnustarfsemi, tengja saman fólkið og byggðirnar og gera landið að einni heild.

Hitt atriðið sem ég vil nefna, sem kom fram í máli hv. þingmanns, er að menn standi frammi fyrir því að eiga annarra kosta völ. Það er gott og gilt sjónarmið. Ég nefndi það sérstaklega þegar ég fjallaði um Hvalfjarðargöngin að þar væri sá kostur fyrir hendi að keyra fyrir Hvalfjörð. Á fögrum degi er það ákaflega skemmtilegt og ágætt en kostar bæði fé og tíma. Það er svo sannarlega sjónarmið sem ég tel (Forseti hringir.) fullgilt og sem verði að hafa í huga þegar menn í framhaldinu móta (Forseti hringir.) nánari hugmyndir um fjármögnun framkvæmda, eins og getið (Forseti hringir.) er um í þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu.